131. löggjafarþing — 107. fundur,  12. apr. 2005.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

644. mál
[00:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef þá tilfinningu varðandi tengsl Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins að ég er mjög hrædd við að slíta þau. Ég vildi gjarnan að hæstv. menntamálaráðherra segði okkur örlítið meira um sýn hennar á Sinfóníuhljómsveitina. Með þeirri breytingu sem hér er gerð, verði frumvarpið að lögum, er greiðsluþátttaka ríkissjóðs aukin. En það er ekki gerð nein breyting á greiðsluþátttöku borgarsjóðs Reykjavíkur og bæjarsjóðs Seltjarnarness.

Nú spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Var ekki við undirbúning þessa frumvarps leitað til stjórnar Sinfóníuhljómsveitarinnar varðandi álit á þessari breytingu, borgarsjóðs Reykjavíkur eða forsvarsmanna Reykjavíkurborgar varðandi greiðsluþátttöku Reykjavíkurborgar eða forstöðumanna Seltjarnarnesbæjar varðandi greiðsluþátttöku þeirra?

Ég hef verið þeirrar skoðunar að þjóðin öll eigi Sinfóníuhljómsveitina og það sé mikils virði að sú hljómsveit, sem stundum hefur verið kölluð „best geymda leyndarmál norðursins“ þegar hún hefur spilað í tónleikasölum í menningarborgum veraldarinnar, verði efld og þjóðin fái tækifæri til að standa við bakið á henni. Mér fannst Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær taka þessu þannig á sínum tíma, að forsvarsmenn þessara sveitarfélaga ákváðu að standa formlega við bakið á hljómsveitinni með því að fjármagna hana að hluta til. Ég hefði viljað sjá að fleiri sveitarfélög ættu þess kost að koma inn í með beinni greiðsluþátttöku til að finna fyrir því að þau ættu líka Sinfóníuhljómsveit Íslands þannig að við fyndum fyrir því öll sem getum notið listar hinna frábæru hljóðfæraleikara sem starfa í Sinfóníuhljómsveitinni. Ég held að ef fleiri sveitarfélög kæmu að máli fyndi þjóðin öll að hún ætti þessa öflugu hljómsveit. Þar af leiðandi væri kannski einfaldara fyrir Sinfóníuhljómsveitina að spila víðar en á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst þetta frumvarp kalla á miklu víðfeðmari umræðu um hlutverk Sinfóníuhljómsveitar Íslands en mér finnst vera gefið tilefni til hér vegna framsetningar frumvarpsins.

Ég er þeirrar skoðunar að styrkja þurfi samband listamanna og Ríkisútvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar að Sinfóníuhljómsveitin sé hluti af þeirri stoð menningarinnar sem Ríkisútvarpið hefur tekið á sínar herðar. Það er verulega mikils virði fyrir okkur að eiga allar þær upptökur af sinfóníutónleikum sem við eigum og hjá Ríkisútvarpinu er hluti af menningararfinum geymdur. Það er mikilvægt að þeirri stefnu verði viðhaldið og hún efld og við þurfum að ræða um menningarstefnuna hvað þetta varðar.

Eins og ég segi er á ferðinni frumvarp sem gefur tilefni til mikillar umræðu en af því að hér er komið talsvert langt inn í nóttina og fólk orðið þreytt eftir umræður dagsins geri ég ekki ráð fyrir að meira verði rætt um það að sinni. En ég hvet sannarlega til þess að í menntamálanefnd verði þetta mál tekið til ítarlegrar skoðunar og við sjáum til að allir hlutaðeigandi aðilar verði kallaðir fyrir nefndina og ólíkum sjónarmiðum velt upp.