131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:34]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil af þessu tilefni taka fram að mér þykir óviðurkvæmilegt að vitna í hluta af einkasamtölum. Í annan stað vil ég segja (Gripið fram í.) að í 49. gr. þingskapa — ekki grípa fram í, hv. þingmaður — segir svo:

„Óski alþingismaður upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn er afhent skal forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.“

Nú háttar svo til um fyrirspurn hv. þingmanns, eins og skýrt má verða ef fyrirspurnin er lesin og eins og ég hef hana fyrir framan mig, að þar segir: „Hyggst ráðherra gera Alþingi grein fyrir hagsmunatengslum og fjárhagslegum samskiptum sínum og flokksins við þá aðila sem bjóða í eignarhlut ríkisins í Símanum við einkavæðingu fyrirtækisins á vordögum?“

Það liggur ekki fyrir hverjir bjóða í Símann og þar af leiðandi kemur fyrirspurnin fram á undarlegum tíma, er snemmborin eins og stundum er kannski sagt, og öldungis ljóst að hún fellur ekki undir 1. mgr. 49. gr. þingskapa eins og hún hefur verið túlkuð, eins og ég gerði þessum hv. þingmanni grein fyrir.

Þar sem hv. þingmaður kaus að vitna til einkasamtals vil ég geta þess að hann bauðst til að umorða fyrirspurn sína og ég hef ekki séð það handrit.

Síðan segir í 49. gr.:

„Alþingismaður segir til um það hvort hann óskar skriflegs eða munnlegs svars. Stutt greinargerð má fylgja fyrirspurn ef óskað er skriflegs svars.“

Síðan segir í 2. mgr.:

„Forseti ákveður svo fljótt sem hann telur sér unnt hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á þingfundi. Skal það einnig gert ef fyrirspyrjandi óskar þess er forseti synjar fyrirspurn.“

Samkvæmt þingsköpum bar hv. þingmanni að óska eftir því að þessi fyrirspurn yrði borin undir þingfund, greidd atkvæði um það hvort hún skyldi leyfð umræðulaust. Hv. þingmaður hefur kosið að kveðja sér hljóðs um efni fyrirspurnarinnar en fara ekki að þingsköpum í þessu efni. Ég vil biðja aðra hv. þingmenn að hafa í huga skýr ákvæði þingskapa um það hvernig beri að haga sér þegar svo stendur á.