131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:42]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil í fyrsta lagi segja að það kemur mér mjög mikið á óvart að einn af varaforsetum þingsins skuli segja úr ræðustól að það sé allt of mikið um ritskoðun á fyrirspurnum. Ef svo er hefði mér þótt viðkunnanlegt að hv. þingmaður hefði rætt þetta a.m.k. einu sinni eða svo í forsætisnefnd.

Í 2. mgr. 49. gr. þingskapa segir:

„Forseti ákveður svo fljótt sem hann telur sér unnt hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á þingfundi.“

Nú má vera að hv. þingmaður kalli þetta ritskoðun á fyrirspurnum en sú ritskoðun er þá a.m.k. í samræmi við þingsköp Alþingis. Þegar við stöndum hér eða sitjum í þessum stól ber okkur að starfa í samræmi við þingsköp Alþingis.

Ég get ekki áttað mig á því hvernig það getur verið opinbert málefni þegar óskað er svars um tengsl við fyrirtæki sem enginn veit hvert er.