131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Synjun fyrirspurnar.

[13:48]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því ef forseti nú lýsir því yfir að hann synji ekki um fyrirspurnina og ég geri þá bara ráð fyrir því að hún verði prentuð, enda alsiða að spurt sé um væntanlega og fyrirhugaða og fyrirsjáanlega hluti hér í stjórnarathöfnum, eins og þingmenn þekkja.

Við hæstv. forsætisráðherra vil ég segja að fyrst að allt er í þessu stakasta lagi er full ástæða fyrir hæstv. ráðherra að halda stillingu sinni hér í umræðunni. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem forsetinn og forsætisráðherrann bindast höndum saman um að halda hér aftur og niðri umræðu um fjármál stjórnmálaflokkanna. Ég hef áður óskað eftir því að fá að ræða það mál utan dagskrár og þeir báðir synjað, því að þau heyra ekki undir neinn ráðherra.

Nú er synjað um þessa fyrirspurn. Í eitt og hálft ár hafa þeir látið undir höfuð leggjast að framfylgja þingsköpum og skila hér inn skýrslu um fjármál stjórnmálaflokka sem Alþingi hefur samþykkt að lögð skuli fram. Aftur og aftur reyna menn að varðveita þessa leynd fornaldar yfir hagsmunatengslum stjórnmálaflokkanna og stjórnmálamanna.

Þeir sem leyna hafa að jafnaði einhverju að leyna. En ég hvet hæstv. forsætisráðherra til þess að hreinsa andrúmsloftið, ekki bara hér á Alþingi heldur í samfélaginu öllu, og lýsa því yfir að þau tengsl sem hann og flokkur hans, þeir sem fara með einkavæðingu á þessum miklu hagsmunum íslensks almennings, Símanum, verði umyrðalaust og að fullu gerð opinber og öllum aðgengileg í einkavæðingarferlinu þannig að almenningur á Íslandi geti treyst því að þar ráði annarleg sjónarmið ekki ríkjum. (Forseti hringir.) Um annað er ekki beðið, um annað er ekki spurt, (Forseti hringir.) og ég bið hæstv. forsætisráðherra um að halda stillingu sinni þó að ekki sé ástæða til að biðja hæstv. forseta um hið sama.