131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Beiðni um skýrslu.

[13:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er auðvitað útilokað við það að búa, þegar ég hef kallað eftir svörum frá hæstv. forætisráðherra um hvers vegna ekki hafi verið svarað skýrslubeiðni sem legið hefur fyrir forsætisráðuneytinu í eitt og hálft ár, að því sé ekki svarað hverju það sæti. Eins hvort ekki verði lögð hér fyrir (Forseti hringir.) þessi skýrsla áður en þingi lýkur (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að ræða hana.

(Forseti (HBl): Ég vil óska eftir því í fullri vinsemd við hv. þingmann að haga sér í samræmi við þingsköp Alþingis sem ég veit að hv. þingmaður kann. Hins vegar erum við bæði það þingvön, ég og hv. þingmaður, og hún veit að ef hv. þingmaður kýs að halda áfram máli sínu í trássi við þingsköp verður það að vera mat þingmannsins að það sé rétt hegðan.)

Hér er verið að fjalla um fundarstjórn forseta og það hlýtur að falla undir fundarstjórn forseta þegar ráðherrar hafa ekki svarað skýrslubeiðni sem átti raunverulega að liggja hér fyrir fyrir löngu síðan. Þeir hafa 10 vikur til að svara en 70–80 vikur hafa liðið án þess að hafa verið svarað. Það hlýtur að falla undir fundarstjórn forseta og ég kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra sitji ekki þarna og hlýði á þetta mál án þess að svara.

Hvað býr að baki því að hæstv. forsætisráðherra vill ekki leggja þessa skýrslu fyrir þingið með eðlilegum hætti þannig að við getum rætt hana? Ég krefst þess að hæstv. forsætisráðherra svari þessari einföldu fyrirspurn sem ég beini til hans: Verður þessi skýrsla lögð fyrir þingið í góðan tíma áður en þingið fer heim þannig að hægt sé að fjalla um hana?