131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:16]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir síðustu alþingiskosningar fóru núverandi stjórnarflokkar fram með gríðarlegum loforðum um auknar samgöngubætur og aukið fjármagn til samgöngumála. En strax eftir kosningar hófst svo niðurskurðurinn. Niðurskurðurinn á þremur árum, 2004–2006, er á milli 6–7 milljarðar kr.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi beitt sér fyrir sjálfstæðum útreikningum á því hvaða þensluáhrif það hefði haft ef samgönguáætlun hefði verið fylgt og ekki komið til niðurskurðar. Tökum t.d. Vestfirði. Er niðurskurður á vega- og samgönguáætlun þar vegna þenslu á Vestfjörðum? Ég held ekki. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Var farið kerfisbundið í að kanna áhrif þessara framkvæmda í staðinn fyrir að leggjast bara flatur fyrir einhverjum sögusögnum úti í bæ.