131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:23]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst athyglisvert í umræðu um vegamál þegar verið er að ræða um niðurskurð á hinu opinbera að aldrei á síðustu átta árum hefur verið lagt jafnlítið hlutfall af ríkissjóði til vegamála. Það er eins og þessi málaflokkur, málaflokkur hæstv. samgönguráðherra, verði alltaf fyrir barðinu á niðurskurðarhnífnum meðan aðrir þættir ríkisútgjalda vaxa. Núna er hugað að því að 3% af útgjöldum ríkisins fari til vegamála en árið 2001 var það 4,5%. Mér finnst eins og hæstv. ráðherra verði alltaf undir í niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar og þessi málaflokkur verði alltaf fyrir barðinu á því þegar hefta þarf vöxt ríkisins.