131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:25]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Á síðu 65 í samgönguáætlun stendur svo um Reykjavíkurflugvöll, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er ráðgert að framkvæmdir við flughlað á austursvæði flugvallarins verði gert í tveimur áföngum, árið 2007 og árið 2008, miðað við að fljótlega verði byggð ný flugstöð“ — ég endurtek — „ný flugstöð með tilheyrandi flughlaði á austanverðu flugvallarsvæðinu.“

Nú er byggð í Reykjavík afskaplega dreifð og fólk eyðir miklum tíma í ferðalög. Tugir þúsunda manna keyra langar leiðir á hverjum degi með miklum kostnaði og mikilli tímaeyðslu. Spurning mín til hæstv. samgönguráðherra er eftirfarandi: Er hér verið að festa í sessi flugvöll í miðbæ Reykjavíkur sem Bretar tóku ákvörðun um í síðustu heimsstyrjöld að byggja og þar með taka eitt verðmætasta byggingarsvæði á landinu úr notkun og hindra að byggð í Kvosinni í Reykjavík geti vaxið eins og skyldi?