131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:30]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Heildarniðurskurður á árunum 2005 og 2006 er samkvæmt vísitölu Vegagerðarinnar 5,4 milljarðar kr. Þetta er verulegur niðurskurður frá fyrri áætlun og hlýtur að koma einhvers staðar niður og mikil umbylting frá digrum kosningavíxlum sem var veifað rétt fyrir kosningarnar 2003 þegar átti að gera allt fyrir alla. Til að taka eitt örlítið dæmi um hin digurbarkalegu, stórkarlalegu loforð um stórbrotnar vegaframkvæmdir rétt fyrir kosningarnar 2003 má geta þess að þremur mánuðum fyrir síðustu þingkosningar kynntu oddvitar stjórnarflokkanna í ráðherrabústaðnum að ríkisstjórnin hefði samþykkt að verja 6 milljörðum kr. næsta eina og hálfa árið til aukinna framkvæmda og voru verkefnin talin upp. Til dæmis átti að setja 500 millj. kr. í Suðurstrandarveg, 200 millj. í lagfæringar á vegi um Hellisheiði og 200 millj. í Gjábakkaleið og mikil áhersla lögð á að flýta þessum framkvæmdum. Nú er komið í ljós að margt af þessu hefur verið slegið algerlega af og munar þá mestu um hinn mikla Suðurstrandarveg sem hér var lofað sem sérstakri samgönguframkvæmd fyrir síðustu þingkosningar vegna kjördæmabreytinga og lá kjördæmabreytingin til grundvallar. Nú hefur þessi vegur nánast verið sleginn út af kortinu og sér hans nánast hvergi stað í þeirri áætlun sem hér um ræðir nema rétt útboð á örlitlum köflum.

Heildarniðurskurðurinn er að mínu mati mjög fjandsamleg aðgerð fyrir byggðirnar í landinu og þá er ég ekki að undanskilja höfuðborgarsvæðið, fjarri lagi. Þar er að sjálfsögðu langalvarlegasta málið sem lýtur að Sundabraut af því að samkvæmt þessari áætlun er Sundabrautin nánast úti, það er skilað auðu og framkvæmdir stopp næstu árin, nema hæstv. ráðherra svari því skýrt við umræðurnar í dag hvenær eigi að hefja hönnun mannvirkisins sem er talið að taki allt að þremur árum. Hvenær hefjast framkvæmdir? Hvenær eru áætluð verklok, hvenær er séð fyrir endann á framkvæmdunum og hvernig á að fjármagna framkvæmdina? Allt er þetta á reiki og ef fást ekki svör um tímasetningar og áætlanir er hæstv. ráðherra einfaldlega að skila auðu hvað varðar Sundabrautina sem er án efa ein af mikilvægustu vegaframkvæmdum landsmanna allra hvort heldur er höfuðborgarbúa eða þeirra sem búa úti á landi. Engin tölusett markmið á áætlun um framkvæmd Sundabrautar er að finna í þessari áætlun. Þar ætti hana að sjálfsögðu að vera að finna enda er þetta ein mesta samgönguáætlun sem liggur fyrir okkur Íslendingum á næstu árum.

Einnig er mjög alvarlegt vegna hagsmuna margra byggðanna utan höfuðborgarsvæðisins og nálægðar þess að þessi samdráttur og niðurskurður skuli koma svona harkalega fram og er óásættanlegur og óskiljanlegur. Allt tal um byggðastefnu eru orðin tóm á meðan svo á að skera niður í samgöngumálum sem er langmikilvægasta einstaka byggðamálið hvort heldur er litið til byggðanna á suðvesturhorninu eða byggðanna fyrir utan þær. Verið er að fresta mikilvægum framkvæmdum á meðan byggðunum blæðir þar sem hvert ár er dýrmætt sjái fólk ekki fram úr ástandinu. Því er um að ræða áfall fyrir margar byggðir. Samgöngur eru lykilatriði í að viðhalda og efla byggðirnar, endurreisa mörg byggðarlögin frá því sem nú er og því hlýtur að vera spurt: Er skynsamlegt að skera niður ríkisframlög í þessum málaflokki þegar ástandið víða er sem raun ber vitni? Nei, að sjálfsögðu ekki, það er fráleitt og þarfnast ítarlegra skýringa af hálfu hæstv. ráðherra núna þegar kosningavíxlarnir eru fallnir og þetta stendur eftir, 5,4 milljarða niðurskurður á árunum 2005 og 2006. Niðurskurðurinn á þessum árum er gagnrýniverður og óeðlilegur. Þar á t.d. að slá af Suðurstrandarveginn, eins og ég nefndi áðan, árin 2007 og 2008 samkvæmt áætlun og ekki má gleyma því að þarna er um að ræða kosningaloforð til kjósenda í hinu nýja kjördæmi vegna kjördæmabreytinga, forsenda kjördæmabreytingarinnar var haldið fram. Nú er sá vegur enn og aftur settur í salt og svikinn, var kynntur sem sérstök samgönguframkvæmd vegna breytinganna og lá þeim til grundvallar. Margt annað mætti nefna og mun sjálfsagt koma fram í umræðunni síðar í dag.

Að sjálfsögðu er að finna jákvæða þætti líka. Það er jákvætt að Hellisheiðin er komin inn fyrir árið 2007 og mikilvægt að þarna sé um að ræða upphaf framkvæmda sem sjái fyrir endann á sem allra fyrst. Þarna vex umferðin mest, 12% á milli áranna 2002 og 2003 bara á milli Selfoss og Hveragerðis og 70% umferðaraukning yfir Hellisheiðina á síðustu tíu árum. Þetta er öryggismál, þetta er byggðamál, vegurinn er seinfarinn og hættulegur og mikilvægt að hrinda breikkun Suðurlandsvegar í framkvæmd. Einnig er það jákvætt að fyrir árið 2007 muni verða teknar upp aðrar viðmiðanir um skiptingu fjármagnsins til vegaframkvæmda en verið hefur en þá verður meira tillit tekið til vegaframkvæmda og umferðarmagns og pottaskiptingum milli kjördæma verður hætt. Að sjálfsögðu er því einnig um að ræða jákvæðar breytingar og jákvæða hluti um leið og niðurskurðurinn sjálfur er allt of mikill og kemur harkalega niður á bæði höfuðborgarsvæðinu og byggðunum öllum.

Ég nefndi áðan í andsvari til hæstv. ráðherra tölur um útgjöld ríkis til vegamála á árabilinu 1970–2005 samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá upplýsingaþjónustu Alþingis í morgun. Þar kemur fram að árið 1990 eru útgjöld til vegakerfisins, til vegamála beint sem hlutfall af landsframleiðslu 1,35%. Árið 2003 eru samkvæmt þessum tölum útgjöld til vegakerfisins sem prósentur af landsframleiðslu 1,59%. Árið 2005 eru samkvæmt þessum tölum útgjöld til vegakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu komin niður í 0,92%. 60–70% niðurskurður samkvæmt þessu til vegamála af útgjöldum af landsframleiðslu einungis á árabilinu 2003–2005. Um er að ræða hrun í útgjöldum til vegamála litið til síðustu ára þótt við tökum bara þessi tvö ár, ég tala ekki um ef litið er aftur í tímann þar sem útgjöldin voru til muna hærri.

Þetta eru alvarlegar tölur, virðulegi forseti, eins og ég nefndi hérna áðan. Almennt á að auka framlög til vegamála og leggja sérstaka áherslu á öflugar tengingar við höfuðborgarsvæðið eins og Sundabrautina sem við ræddum um áðan og verður örugglega mikið rætt um í dag. Framlög til samgöngumála kalla ekki á veruleg rekstrarframlög í framtíðinni og spara að því er fullyrða má mikla fjármuni þegar allt er reiknað. Það á við um fækkun slysa og ódýrari rekstur bifreiða, minni eldsneytisnotkun með styttri vegalengdum og tímasparnað vegfarenda sem er að sjálfsögðu mikils virði. Þess vegna er það óskiljanlegt, virðulegi forseti, að nú séu útgjöld til vegamála og samgöngumála skorin niður um 5,4 milljarða. Það er af sem áður var þegar glitti í kosningarnar handan við hornið. Þessu öllu saman hlýtur hæstv. samgönguráðherra að svara í dag, hverju sætir að útgjöld til vegakerfisins hafa bókstaflega hrunið á síðustu árum og eru nú sem raun ber vitni.