131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:41]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvaðan tölurnar um niðurskurð upp á 5,4 milljarða kr. séu komnar. Þær eru að sjálfsögðu komnar úr síðustu samgönguáætlun. Hér er um að ræða vísitölu Vegagerðarinnar sjálfrar, staðfestar af henni, og samkvæmt síðustu áætlun er um að ræða niðurskurð til þessara tveggja ára upp á 5,4 milljarða kr.

Hvað hitt varðar, Suðurstrandarveg, Suðurlandsveg og Reykjanesbraut, þá er sú uppstilling fjarstæðukennd hjá hæstv. ráðherra og fáránlegt að leggja það þannig upp. Suðurstrandarvegur var kynntur sem sérstök samgönguáætlun vegna kjördæmabreytinganna. Að sjálfsögðu á það ekki að stoppa af aðrar sjálfstæðar framkvæmdir eins og við höfum verið að berjast fyrir á Alþingi í vetur, þingmenn Suðurkjördæmis, um að breikka Suðurlandsveg og bæta. Hér er verið að gera ráð fyrir 300 milljónum í breikkun Suðurlandsvegar árið 2007, verulega lágir fjármunir en að sjálfsögðu er það gleðiefni að breikkun Suðurlandsvegar skuli vera komin inn á samgönguáætlun, enda án nokkurs vafa eitt af mikilvægustu samgönguverkefnum þjóðarinnar ásamt nokkrum öðrum sem hér hefur verið rætt um í dag. Sú uppstilling er því fáránleg og röng. Stjórnvöld eru einfaldlega að svíkja Suðurstrandarveginn sem var búið að lofa fyrir mörgum árum sem sérstakri áætlun vegna kjördæmabreytinganna og átti ekki að hafa neitt með aðrar framkvæmdir á þeim svæðum að gera. Þessu skulu stjórnvöld svara sjálf án þess að benda í aðrar áttir og spyrja af hverju menn hefðu þá ekki viljað fara nú mörgum árum seinna í sjálfsagðar vegaframkvæmdir yfir Suðurlandsveg upp á 300 millj. kr. sem eru einungis lítið brot af þeim kostnaði sem áætlaður er í Suðurstrandarveg allan.