131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:48]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er undarlegt ef samgönguyfirvöld ætla að taka flóttann frá niðurskurðinum yfir til Reykjavíkurlistans sem fer að sjálfsögðu ekki með framlög ríkisins til samgöngumála. Það er einfaldlega rangt sem haldið er fram að sú framkvæmd sé ekki inni á samgönguáætlun eða hafi tafist með einhverjum hætti vegna borgaryfirvalda. Þar eru samgönguyfirvöld og ríkið í gegnum stofnanir sínar að þvælast fyrir skipulagsmálum í borginni. Að sjálfsögðu liggur rót vandans í því að verkaskiptingin er óskýr og vitlaus á milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar samgöngumálin. Það eru til fjöldamörg dæmi um það hringinn í kringum landið, en það er fráleitt að halda því fram að það að samgönguyfirvöld skuli skila auðu í málefnum Sundabrautarinnar eins og fram hefur komið sé borgaryfirvöldum í Reykjavík að kenna. Það er einfaldlega rangt, (GHall: Nei.) fjarstæðukennt að halda því fram. Það er eingöngu um dáðleysi yfirvalda að ræða og viljaleysi til að ráðast í þá mikilvægu framkvæmd sem er lagning Sundabrautar, framkvæmd sem skiptir landsmenn alla miklu máli. Það er ákaflega dapurlegt svo vægt sé til orða tekið að þegar fram er komin samgönguáætlun fyrir þessi ár skuli vera skilað auðu í stærstu samgönguframkvæmd sem fyrir liggur í náinni framtíð. Það er engin tímasett áætlun um hönnun, um framkvæmdir, um fyrirhugað upphaf á verkinu eða fyrirhuguð verklok. Hér er einfaldlega skilað auðu og þau hljóta ekki skjól yfirvalda í Reykjavík í þeim niðurskurði sem hér um ræðir.