131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:49]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert hvernig hv. þingmaður getur snúið staðreyndum á hvolf. Sannleikurinn í málinu er sá að borgaryfirvöld hafa ekki enn tekið ákvörðun um legu Sundabrautar, það er alveg ljóst. (Gripið fram í: Jú, jú, jú.) Það liggur ekkert fyrir um það. Það er líka athyglisvert að hlusta á þingmanninn segja að það sé eitthvert misvægi á milli ráðherra og borgaryfirvalda sem einfaldlega felst í því, virðulegi þingmaður, að það er ákvæði um það að ef borgaryfirvöld vilja fara dýrari leið en vegagerð er þeim sjálfsagt að gera það. Borgaryfirvöld vildu hengja mikið járnarusl upp á sund og kalla það brú, Golden gate, sem er 4 milljarða kr. dýrari framkvæmd en skynsamlegt er. Maður sér það nú í gegnum línurnar og nýlega hafa þingmenn Reykjavíkur fengið bréf frá borgarstjóranum þar sem hún er að draga sig að og er að verða aðlæg því að fara leið sem er 4 milljörðum ódýrari en það sem R-listinn hefur hangið í í nokkur ár.