131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:52]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít svo á að stjórn efnahagsmála sé æðri öðrum málaflokkum sem við ræðum um á Alþingi. Í aðdraganda síðustu kosninga og í kjölfar þess að tekin var ákvörðun um framkvæmdir við Kárahnjúka var það skýrt og ljóst og kom klárt fram að draga þyrfti úr framkvæmdum ríkisins. Opinberar framkvæmdir yrðu að dragast saman til að öll rauð strik héldu gagnvart kjarasamningum og gagnvart verðbólgumarkmiðum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Telur hann að ekki hafi þurft að skera neitt niður í samgöngumálum? Hvar átti að skera niður? Átti að skera niður í heilbrigðismálum? Átti að skera niður í skóla- og menntamálum eða telur þingmaðurinn að það hafi yfir höfuð ekkert átt að skera niður og láta verðbólgudrauginn vaða upp, láta markmið stjórnvalda um kjarasamninga lönd og leið? Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það skipti aðalmáli eða að láta alla hluti vaða á súðum, fara í óráðsíu eins og gerist vítt og breitt um landið þar sem Samfylkingin er við völd.