131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:53]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar spurningar hjá hv. þingmanni og ákaflega einfalt að svara þeim. Fyrir það fyrsta lá ekkert á að lækka skatta. Það var algerlega óþörf og fráleit framkvæmd að lækka skatta rétt fyrir síðustu jól. Það átti að sjálfsögðu að gæta allt annarra mála eins og við ræðum um og að kalla hinar brýnu samgöngubætur óráðsíu er fráleitur málflutningur.

Að mínu mati eiga samgöngumálin að ganga fyrir flestum öðrum málum enda er um algert grundvallaratriði að ræða, æðakerfi samfélagsins, brýnasta öryggismál okkar allra þannig að fyrir þeim þarf ekki að færa rök. Hvar átti að skera niður? Í fyrsta lagi, eins og ég nefndi áðan, átti ekki að lækka skatta. Í öðru lagi átti að skera niður í utanríkisþjónustunni. Að sjálfsögðu á að fara með niðurskurðarhnífinn þar ef það þarf að fara með hann eitthvert eins og þarf örugglega að gera, enda hafa ríkisútgjöld vaðið út eftir að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum og forgangsröðun ekki alltaf í lagi, fjarri því. Auðvitað á að gæta fyllstu nærgætni í efnahagsmálum en það átti ekki að láta kutann ríða á samgöngumálin, að sjálfsögðu ekki, og það átti ekki að skera niður samgöngufjármuni upp á 5,4 milljarða fyrir árin 2005 og 2006. Það átti alls ekki að gera það. Það átti ekki að lækka skatta og það á að skera niður í utanríkisþjónustunni þar sem hægt er að fullyrða að mjög mikil óráðsía og mjög mikið bruðl sé í gangi.