131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:55]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var athyglisvert að heyra hv. þm. Björgvin Sigurðsson tala um skattamálin. Mig minnir að Samfylkingin hafi samþykkt skattalækkanirnar og hafi ekki talað á móti þeim en nú eru þær orðnar af hinu slæma.

Hv. þingmaður talaði um æðakerfi þjóðfélagsins og um samgöngumálin í því sambandi. Það er rétt að samgöngumálin skipta auðvitað miklu máli og ekki síst fyrir byggðir landsins, en ef það er eitthvað sem má kalla æðakerfi eru það efnahagsmálin. Það eru efnahagsmálin sem skipta máli og þau eru drifkrafturinn í því að hægt sé að byggja upp samgöngumannvirki á landinu. Þess vegna skipta þau meginmáli.

Auðvitað má deila um áherslur í samgöngumálum en við getum fagnað því að Reykjanesbrautin skuli vera kláruð á þessu tímabili og að sú ákvörðun hafi verið tekin af stjórnarflokkunum að Hellisheiðin skyldi fá u.þ.b. 700 millj. á áætluninni.