131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi samhengi stóriðjuframkvæmdanna og fjárveitingar til vegamála held ég að það sé bara mál sem við þurfum að fara yfir alveg sérstaklega. Ég held að ég muni nokkuð vel umræðurnar sem voru á Alþingi veturinn 2002–2003 hvað þetta varðar. Það vorum við sem spurðum þegar menn töluðu um aðhald í útgjöldum ríkisins: Já, hvar á að skera?

Þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn héldu ræðurnar um mestu byggðaaðgerð allra tíma spáði ég mönnum því að það sem aðrir landshlutar mundu sennilega fyrst og fremst verða varir við yrði niðurskurður í vegamálum. Þetta sóru menn af sér. Menn sóru það af sér með því að ákveða svo seint sem á haustmánuðum 2002 að stórauka vegaframkvæmdir og menn sóru það af sér með því að afgreiða áætlun um framkvæmdir 13. mars 2003 sem gerði ráð fyrir stórfelldum framkvæmdum. Var það bara í gríni, allt í plati? Stóð ekki til þá að ráðast í Kárahnjúkavirkjun? Jú. Það var verið að ákveða það líka og búið að afgreiða það.

Það er ekki fyrr en eftir kosningar sem menn hafa burði í sér til að koma og segja: Þetta var allt í plati, við meintum ekkert með þessu. Og ef við setjum þetta inn í hið efnahagslega samhengi er það auðvitað eins og hver annar roknabrandari að halda að menn stilli af hagkerfið með 1,5–2 milljörðum í vegagerð á sama tíma og einkaaðilarnir standa fyrir framkvæmdum upp á 50, 70, 90 milljarða á hverju ári, á sama tíma og bankakerfið dælir 300 milljörðum af nýju lánsfé inn í landið í fyrra og á sama tíma og útlán til húsnæðismála aukast um fleiri tugi milljarða á nokkrum mánuðum.

Það er auðvitað óþolandi að þessi eini málaflokkur sé alltaf undir það settur að hann sé dreginn sundur eins og harmonikkubelgur en þó oftar því miður þjappað harkalega saman til að uppfylla einhverja sálræna þörf, einhverja sýnd um það að menn séu að sýna ábyrgð í efnahagsmálum. Þetta er bara rugl í 950 milljarða hagkerfi. Hverju breytir það þó að dreifðar almennar framkvæmdir af þessu tagi fái að hafa sinn gang?