131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:11]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður efast um að hinar umfangsmiklu framkvæmdir á Austurlandi séu byggðaaðgerðir. Lítum aðeins á þann þáttinn sem varðar vegi. Hvað hefur verið að gerast á Austurlandi í uppbyggingu vegakerfisins? Það er verið að ljúka við göng í gegnum Almannaskarðið, það er verið að ljúka við jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og það er búið að leggja vegi í Fljótsdal og á Héraði og þarna niður um firði í tengslum við stóriðjuframkvæmdirnar þannig að þetta er nánast allt teppalagt. Ég á von á því að hv. þingmenn þess kjördæmis kunni að meta það með einhverjum hætti og ég hefði frekar talið að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi um það hvort við ættum að fara með öðrum hætti að um framkvæmdir, svo sem eins og að leggja nýjan veg í staðinn fyrir Öxarfjarðarheiði, nýjan veg niður að Vopnafirði, veg að Dettifossi, áform um Héðinsfjarðargöng eða aðrar slíkar framkvæmdir í því tiltekna kjördæmi.

Menn sleppa sér út í stóryrði og upphrópanir um niðurskurð en sleppa því algerlega að fjalla um þessar mikilvægu framkvæmdir sem eru í gangi og samgönguáætlun gerir ráð fyrir að verði farið af stað með. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér miklum vonbrigðum að fá ekki annars konar umræðu um þessar tilteknu framkvæmdir, svo að eitthvað sé nefnt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa í andsvari fleiri orð um það sem hv. þingmaður sagði.