131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:15]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Á þeim stutta tíma sem er gefinn til umræðu um þessa viðamiklu samgönguáætlun ætla ég að halda mig við vegamálin en vil þó segja að ég fagna því að í flugmálaþætti áætlunarinnar er gert ráð fyrir lengingu flugvallarins á Þingeyri til að styrkja áætlunarflug á norðanverða Vestfirði. Eins og menn vita er það ekki alveg traust vegna aðstæðna á Ísafirði og nauðsynlegt að hafa varaflugvöll og aðra braut að grípa til þegar vindáttin er þannig að ekki er hægt að fljúga á Ísafjörð.

Varðandi vegamálin vil ég í fyrsta lagi segja að ég tel þau áform ríkisstjórnarinnar að draga úr vegaframkvæmdum á árunum 2004, 2005 og 2006 algjörlega óþörf. Ég hef gert rækilega grein fyrir því í þingflokki mínum að ég sé ekki sammála því og styðji ekki að menn ráðist í þann niðurskurð, eins og áformað hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vil færa fyrir því þrjár ástæður að ég tel þetta algerlega óþarft.

Í fyrsta lagi var ríkisstjórnin sammála um að rétt væri, ofan í þensluástandið, að lækka skatta á þessu ári um sem nemur 6 milljörðum kr. Ég segi: Ef ríkisstjórnin telur að efnahagslífið þoli það sem fylgir skattalækkun upp á þá fjárhæð er algjör óþarfi að draga saman vegafé um 2 milljarða kr. Menn gætu þá dregið úr skattalækkuninni þannig að hún yrði bara 4 milljarðar kr. en haldið vegaframkvæmdum óbreyttum. Á næsta ári er gert ráð fyrir að lækka skatta um sem svarar 16 milljörðum kr. Það segir ríkisstjórnin í öðru orðinu að sé allt í lagi, efnahagsástandið þoli það, en í hinu orðinu segir ríkisstjórnin: Það þarf að draga úr vegaframkvæmdum um 2 milljarða kr. Ég er ekki sammála því. Þessi röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar gengur ekki upp. Það er einfaldara að leysa málin með því að hafa skattalækkunina minni og hætta við lækkun á fé til vegaframkvæmda.

Í þessu felst einfaldlega sú afstaða að meiri þörf sé á því að halda áfram samkvæmt þeirri áætlun sem við gengum frá fyrir kosningar 2003 og sögðum kjósendum okkar að við ætluðum að fylgja á næsta kjörtímabili ef ríkisstjórnin fengi fylgi til þess. Ég tel meiri þörf á því að standa við þau áform en að ráðast í risavaxnar skattalækkanir á þeim tíma sem þenslan er hvað mest, sem allir erlendir sérfræðingar mæla gegn að ráðist verði í á meðan þenslan stendur. Það segja bæði sérfræðingar OECD og sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í öðru lagi er fjárhæðin svo lítil í efnahagslegum stærðum að hún skiptir engu máli. Tveir milljarðar af 950 milljarða kr. þjóðarframleiðslu skipta engu máli, en upphæðin er stór í framkvæmdafé ríkissjóðs, sem er áætlað að verði um 16 milljarðar til vegamála, sjúkrahúsmála og annarra mála á þessu ári. Það munar um það.

Í þriðja lagi bendi ég á að ríkisstjórnin telur, á sama tíma og hún telur nauðsyn á að skera niður vegafé um þessa fjárhæð, rétt að ráðast í nýjar virkjanaframkvæmdir á Austurlandi, aðrar en Kárahnjúka, þ.e. á Lagarfossvirkjun, framkvæmdir upp á 2,8 milljarða kr. Leyfisbréf fyrir þeirri framkvæmd var afhent í febrúar síðastliðnum. Áætlaðar eru um 800 millj. kr. í þá framkvæmd á þessu ári, á annan milljarð á næsta ári. Ég spyr: Er verið að skera niður vegafé á þessu ári, ekki bara vegna Kárahnjúkavirkjunar heldur líka vegna Lagarfossvirkjunar? Hvað á það að þýða, virðulegi forseti, að segja við þingheim að draga þurfi saman í framkvæmdum ríkissjóðs vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun en ráðast á sama tíma í aðrar virkjanaframkvæmdir? Ég ætla ekki að leggjast gegn þeim í sjálfu sér vegna þess að ég held að Lagarfossvirkjun og stækkun hennar sé út af fyrir sig þarft mál. Það er hins vegar önnur saga.

Auk þessa vil ég benda á, virðulegi forseti, að samgönguáætlun sem er í gildi fyrir árin 2003–2006 var afgreidd þannig að bætt var inn í hana á síðustu stigum málsins, fyrir kosningar 2003, 4,6 milljörðum kr. Með það fórum við af stað til að hitta kjósendur. Þetta samsvarar um 5 milljörðum kr. á núgildandi verðlagi. Á fyrsta árinu voru framkvæmdirnar samkvæmt því sem áætlunin sagði til um en síðan var skorið niður 2004 og 2005 og til stendur að skera niður framkvæmdir á árinu 2006. Þegar dæmið er gert upp á þessu fjögurra ára tímabili er niðurskurðurinn 2,5 milljarðar kr., þ.e. við skerum niður alla viðbótina árin 2003 og 2004, og meira til. Það höfum við ekki samþykkt, virðulegi forseti. Það hefur aldrei verið tala um að það ætti að skera niður vegaframkvæmdir, heldur fresta þeim. Ég vil halda þessu til haga, virðulegi forseti.

Ef við skoðum söguna síðustu ár þá var fyrir kosningar 1999 ákveðið í ríkisstjórn að bæta við 500 millj. kr. til vegaframkvæmda. Það fé var nýtt til framkvæmda. Árið 2000 var farið að skera niður. Þá var frestað, eins og það hét, 585 millj. kr. Árið 2001 var 700 millj. kr. frestað, árið 2002 1.660 millj. kr. Árið 2003 og var bætt við 3 milljörðum kr. en svo var draumurinn búinn, 2004 er skorið niður um 1.800 millj. kr. og árið 2005 er skorið niður um 1.900 millj. kr., 2006 á að skera niður um 2 milljarða kr. Svo er okkur sagt: Við skulum gera þetta allt árin 2007 og 2008. Þótt ég leggi mig allan fram, virðulegi forseti, er ég alls ekki viss um að mér takist að sannfæra einn einasta kjósanda stjórnarflokkanna í mínu kjördæmi um að rétt sé að treysta þessum orðum. Ég er mjög efins um að ég fái nokkurn kjósanda okkar til að trúa því að menn muni standa við það eftir kosningar að gera það sem þeir segja núna að þeir ætli að gera eftir kosningar.

Það gengur ekki í þessum vegamálum, virðulegi forseti, að lofa stöðugt einhverju fyrir kosningar og skera það svo niður eftir kosningar. Ég beini því til ríkisstjórnarinnar að hún hætti þessum skollaleik. Það er ekki á okkur stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar leggjandi að standa undir því að verja ríkisstjórnina og útskýra þær gjörðir. Menn verða einfaldlega að standa við það sem þeir segja og hafa þrek til að bera málið til enda, út kjörtímabilið, það sem þeir ákveða að gera fyrir kosningar. Annað gengur ekki, virðulegi forseti.