131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:45]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði þingmaður landsbyggðarinnar sem telur náttúrlega eðlilegt að þeir haldi öllu sínu og allur niðurskurður bitni á höfuðborgarsvæðinu. Þannig er réttlæti þingmanna landsbyggðarinnar. Þeir segja að það sé náttúrlega hvergi lifandi á landsbyggðinni ef þetta og hitt er ekki tekið.

Ef við tökum Norðvesturkjördæmi er verið að gera þar ágætismál, klára Djúpið og Mjóafjörð og fara síðan í Arnkötludal og taka Svínadal þannig að menn geti keyrt á Ísafjörð á fimm tímum. Ég fagna því. Á sama tíma er verið að taka Barðaströnd upp á einhverja 2–3 milljarða og reka þar ferju á sama tíma. Mér finnst ekki vit í þessu fyrir nokkurn hlut og ég segi enn og aftur: Þetta er misskipting og misþyrming á skattfé borgara, alla vega þessa svæðis.