131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:53]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg laukrétt að þungaflutningar hafa aukist gífurlega eftir að skipafélögin ákváðu að leggja strandsiglingar um landið af og sumir vegir frá höfuðborgarsvæðinu og til Vestfjarðasvæðisins eru afar lélegir. Það er náttúrlega vel gert við Vestfirðinga að mörgu leyti, Baldur gengur yfir Breiðafjörðinn og kemur upp að Brjánslæk og styttir náttúrlega verulega til Suðurfjarðanna, það er búið að gera mikið af vegum þar sem er af hinu góða. Ef vegáætlunin fær að halda sér verður síðan eftir fjögur, fimm ár kominn vegur með slitlagi allar götur frá höfuðborginni og til Ísafjarðar þannig að það er stutt í þetta.

Ég er alveg sammála því að það er alveg óþolandi að keyra mikið af gömlum malarvegum með þungaflutninga. Það er sem betur fer ekki mikið af þeim. Ef maður fer frá Ísafirði er framkvæmdum í Skötufirði og Hestfirði að ljúka og síðan kemur Mjóifjörður í beinu framhaldi. Þar á eftir kemur Arnkötludalur og þá er hægt að keyra beina leið suður í Hólmavík og Arnkötludal og yfir í Gilsfjörð. Síðan þarf náttúrlega að taka Svínadalinn sem er ekki gífurlega kostnaðarsöm framkvæmd. Það er búið að taka Bröttubrekku og þarf að breikka kannski vegi eitthvað í Dölunum, en það er ekki langt í þetta.