131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í samgönguáætluninni kemur eftirfarandi fram um verkefni á höfuðborgarsvæðinu, orðrétt, með leyfi forseta:

„Á þessu svæði er þjóðvegaumferð langmest og slys tíðust. Þörf fyrir úrbætur hefur vaxið ört á undanförnum árum og ýmsar kostnaðarsamar aðgerðir eru aðkallandi. Á þessu svæði er einnig unnt að fækka umferðarslysum mest.“

Nú hefði maður ætlað að tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008 tæki mið af því en svo er alls ekki. Af rúmlega 31 milljarði sem verja á til vegamála og vegaframkvæmda á þessu tímabili fara einungis liðlega 6,8 milljarðar til höfuðborgarsvæðisins eða 21,9% af heildarfjármagninu. Þó er það svo að 2/3 íbúanna búa á þessu svæði en 1/3 íbúanna á landsbyggðinni.

Ég hef haft góðan skilning á því á umliðnum árum hve mikil þörf er á samgöngubótum á landsbyggðinni og samþykkt að verulegur hluti af vegafé renni til samgöngubóta á landsbyggðinni á kostnað vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Skiptingin hefur reyndar verið þannig sl. tíu ár að um 80% af ráðstöfunarfé til nýframkvæmda hefur gengið til landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðið hefur fengið um 20% í sinn hlut. Það hefur því hallað verulega á höfuðborgarsvæðið og kominn tími til að breyting verði á. Við þingmenn höfuðborgarsvæðisins, sem höfum haft mikinn skilning á vegaframkvæmdum á landsbyggðinni, hljótum að ætlast til þess líka að sá skilningur sé gagnkvæmur og að höfuðborgarsvæðið fái eðlilegt fjármagn til að mæta vaxandi umferðarþunga á vegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst í Reykjavík.

Skiptingin eins og hún liggur fyrir í vegáætluninni fram til 2008 er fullkomlega óeðlileg og gróf móðgun við höfuðborgarbúa og reyndar, virðulegi forseti, ógn við umferðaröryggi ef hlutur höfuðborgarsvæðisins verður ekki bættur. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra og samgöngunefnd til að gæta sanngirni í málinu og rétta hlut höfuðborgarsvæðisins.

Bættar samgöngur á landsbyggðinni og það hve mikill hluti af vegafé hefur runnið þangað á umliðnum árum, sem ég hef stutt, hefur skilað sér í greiðari vegasamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar. Það hefur einmitt átt þátt í því hve umferðarþunginn á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist á umliðnum missirum og árum. Auðvitað er það því líka í þágu allra landsmanna að bæta samgöngurnar á höfuðborgarsvæðinu.

Það verður líka að horfa á málin út frá fleiri þáttum en kjördæmasjónarmiðum og hljóta umferðaröryggissjónarmið að vega þar þyngst. Umferðarþunginn á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til síaukinnar slysahættu því að gatnakerfið annar engan veginn umferðarþunganum á helstu álagstímum. Arðsemi vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu er líka yfirleitt mjög mikil og skilar sér í miklu færri tjónum og slysum.

Frú forseti. Það er full ástæða til að átelja það harðlega að ekki skuli vera gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við Sundabrautina sem er ekki aðeins mikilvæg samgöngubót fyrir höfuðborgarbúa heldur landsbyggðarfólk einnig. Hæstv. samgönguráðherra skuldar okkur skýringu á því hvernig hann ætlar að fjármagna Sundabrautina og hvenær framkvæmdir geti hafist við hana og eftir því kalla ég. Að óbreyttu gæti svo farið að ekki verði hægt að ráðast í framkvæmdir fyrr en á árinu 2009 því ekki er gert ráð fyrir neinu framkvæmdafé.

Það er ekki rétt sem fram kom í framsöguræðu hæstv. samgönguráðherra að margra ára vinna sé eftir til þess að hægt sé að fara í framkvæmdir. Umhverfismat á að liggja fyrir á næstu dögum og eftir að umhverfismat liggur fyrir mun fást niðurstaða um legu brautarinnar. Því hefur borgarstjóri lýst yfir. Eftir það er því ekkert til fyrirstöðu að ráðast í hönnunarvinnuna sem tekur væntanlega tvö ár. Því væri hægt að hefja framkvæmdir á árinu 2007, virðulegi forseti, ef fjármagn væri fyrir hendi. Það er meira að segja álitið mjög knappt að það fjármagn sem gert er ráð fyrir í undirbúningsvinnuna í þessari áætlun dugi í hönnunina og þá er eftir annar undirbúningskostnaður svo sem uppkaup lóða og mannvirkja. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann mér ekki sammála um að þetta fjármagn sem ætlað er nú í samgönguáætlun muni ekki duga fyrir undirbúningsvinnuna þegar tekin eru með uppkaup lóða og mannvirkja?

Í bréfi borgarstjóra til þingmanna Reykjavíkur er m.a. líka bent á að stofnun hins nýja samlags Faxaflóahafna kalli á þá miklu samgöngubót sem Sundabrautin er, m.a. vegna þess að sameining hafnanna hefur aukið þörfina á greiðum samgöngum milli Reykjavíkur og norðurstrandar Hvalfjarðar. Í öðru lagi er nefnt landið á Geldinganesi en uppbygging þar krefst bættra samgangna yfir Kleppsvíkina.

Borgarstjóri hefur lýst því eðlilega viðhorfi að ekki komi til greina að borgarbúar þurfi að greiða fyrir notkun á samgöngumannvirkjum innan hinnar samfelldu byggðar í borginni og munu borgaryfirvöld beita sér eindregið gegn gjaldtöku. Ég tek, virðulegi forseti, að sjálfsögðu heils hugar undir það og spyr um afstöðu hæstv. ráðherra til þess hvort ekki megi treysta því að ekki verði um að ræða gjaldtöku vegna Sundabrautarinnar, en það er fullkomlega óeðlilegt að taka gjald fyrir samgöngubót innan eins sveitarfélags. Ég spyr ráðherra um það og óska eftir því að hann svari því við þessa umræðu hver afstaða hans sé til þessa.

Varðandi Mýrargötuna þá liggur nú fyrir rammaskipulag nýrrar byggðar atvinnu- og íbúðarhúsnæðis á þessu svæði. Þessi samgöngubót skiptir verulegu máli fyrir atvinnuuppbygginguna á þessu svæði. Borgarstjóri hefur bent á að talsverðir þungaflutningar verði áfram um svæði sem gerir kröfu til þess að Mýrargatan verði lögð í stokk á um 360 metra kafla. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 850 millj. kr. og framkvæmdatími er um tvö til þrjú ár. Í samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til þessara framkvæmda. Frú forseti. Ég spyr: Hvers vegna? Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir fjármagni til þessara framkvæmda þó fyrir liggi að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir á árinu 2007?

Mikilvægast af öllu er að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort ekki sé hægt að ná sátt um það meðan þessi samgönguáætlun liggur fyrir þinginu að framkvæmdafé verði tímasett til Sundabrautarinnar þannig að hægt verði að ráðast í hana þegar hönnunarvinnunni lýkur á árinu 2007 og að fyrir liggi afstaða ráðherra til þess að ekki verði farið í þessa framkvæmd með því hugarfari og á þann hátt að um verði að ræða gjaldtöku á þessari framkvæmd, þ.e. Sundabrautinni sem er innan borgarmarkanna. Það væri mjög óeðlilegt og yrði aldrei liðið af okkur Reykvíkingum.

Ástæða er til þess, virðulegi forseti, að fagna því sem fram kemur í þessari umferðaröryggisáætlun sem sett er fram fyrir næstu fjögur árin um að mótuð sé framkvæmdaáætlun í þessu efni. Brýnast er að eyða hinum svokölluðu svartblettum og að gerð verði úttekt á slysastöðum um land allt og sett fram áætlun til að bæta aðstæður og merkingar þar sem slys eru tíð. Við erum þegar að sjá árangur í umferðaröryggismálum og það á að vera okkur hvatning til þess að halda áfram á þeirri braut. Því er ástæða til þess að fagna því að skipulega sé farið í þessi mál með þeirri umferðaröryggisáætlun sem fram kemur í samgönguáætlun sem við fjöllum nú um.