131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:12]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með ánægju hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur með þá umferðaröryggisáætlun sem fyrir liggur.

Það er hins vegar mjög dapurt — kem ég þá aftur að borgaryfirvöldum — að enn skuli slegið á frest framkvæmdum við hættulegustu gatnamót í Reykjavík, þ.e. mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það liggur fyrir að yfir 80 þúsund bílar fara þar um á dag. Árið 2002 urðu þar 92 umferðarslys og 44 slösuðust. Allar götur frá 1994 þegar skipulag mislægra gatnamóta lá fyrir og nýr meiri hluti borgarstjórnar komst að og kastaði því út af skipulaginu enn verið að þvælast með þetta mikla öryggisatriði þéttbýlisfólksins á höfuðborgarsvæðinu. Næsta útspil er að fresta þessum málum næstu sjö árin með því að setja fleiri umferðarljós og breikka aðkomu aðreina að þessum gatnamótum.

Sundabrautina nefndi ég áðan og benti á að ekki væri enn búið að taka ákvörðun um legu brautarinnar. Ég ætla að vitna til bréfs borgarstjóra máli mínu til stuðnings. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Sundabraut. Fljótlega er að vænta úrskurðar umhverfisráðherra vegna kæru á mati á umhverfisáhrifum Sundabrautar.“

Síðan er sagt, með leyfi forseta:

„Matið leiddi í ljós að verulegur kostnaðarmunur er á innri leið og þeirri ytri og er vandséð að aðrar niðurstöður umhverfismatsins réttlæti kostnaðaraukann.“

Það er búið að standa í ströggli við meiri hluta borgarstjórnar í nokkur ár um innri leið eða ytri leið. Hér er nú bara verið að leiða að því að þau ætli að láta umhverfismatið ráða loksins og loksins er þetta mál að komast í höfn. En það er ekki ákvörðun því að hún hefur ekki verið tekin enn.

Það er gott að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir labbar hér fram hjá því að hún mótmælti því og sagði að það væri búið að taka ákvörðun. (Forseti hringir.) Hér beinlínis í orðum borgarstjóra segir að það sé ekki búið að gera það enn.