131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:21]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna er til umræðu tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun. Eftir að slegið var saman í eina samræmda samgönguáætlun vegamálum, flugmálum og hafnamálum er þetta komið hér í eina þingsályktunartillögu. Því fer fjarri að á þessum átta mínútum sem við höfum til umráða í umræðunni hér sé hægt að fjalla um þá málaflokka alla í neinu ítarlegu máli.

Ég vil fyrst víkja að þeirri heildarstefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur gert, þ.e. að skera niður fjárframlög til vegamála. Fyrir síðustu alþingiskosningar var ákveðið að verja sérstöku fjármagni til átaks í vegamálum, auk þess var þá samþykkt líka metnaðarfull samgönguáætlun, vegáætlun, til næstu ára. Strax eftir að kosningum lauk var byrjað að skera niður og því hefur svo verið haldið áfram. Við erum nú að fjalla um vegáætlun þar sem áfram hefur verið beitt niðurskurði. Þau rök að þetta sé gert til að koma til móts við þenslu í samfélaginu eru mjög veigalítil og í rauninni ekki frambærileg.

Það er svo mikið í gangi í samfélaginu að vegaframkvæmdir sem eru hluti af ríkisframkvæmdum eru í algjöru lágmarki. Niðurskurður upp á 2 milljarða á ári í vegáætlun hefur enga þýðingu og skiptir engu máli fyrir þensluna í efnahagslífinu, þvert á móti, vegna þess að samgöngur eru undirstaða fyrir eflingu og styrkingu atvinnulífs og búsetu um allt land sem skilar þá aftur aukningu á tekjum til samfélagsins og til ríkissjóðs. Það er einmitt kannski síst þörf á slíkum aðgerðum því að einn angi af þenslunni í efnahagslífinu nú er hinn mikli viðskiptahalli. Miklu meira er flutt inn en við getum greitt fyrir á hverjum tíma þannig að viðskiptahallinn eykst. Þess vegna ættum við að einbeita okkur að framkvæmdum sem lúta að því að styrkja efnahagslífið og útflutningsgreinarnar.

Ferðaþjónustan er ein öflugasta greinin hér á landi nú og vex hvað hraðast. Hún byggir einmitt á góðu vegakerfi um allt land. Ferðaþjónustan er jafnmikilvæg fyrir alla íbúa Reykjavíkur, íbúa á Norður-, Austur- og Vesturlandi, hvar sem er. Í þessari umræðu á milli landshluta skyldu menn hafa í huga að einn stærsti atvinnuvegur í Reykjavík og hér á suðvesturhorninu er ferðaþjónusta og atvinna sem tengist henni. Þess vegna skiptir einmitt svo miklu máli að ferðamenn sem koma til landsins hingað, hvort sem er um Keflavíkurflugvöll, til Reykjavíkur eða fyrir austan, geti farið um allt landið. Vegakerfið skiptir miklu máli í að efla þetta atvinnulíf fyrir okkur öll.

Því miður er röng áhersla uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar, að skera niður fjármagn til vegamála.

Ég vil nefna sérstaklega einn þátt í vegakerfinu sem gleymist gjarnan í umræðunni um samgöngumál, en það eru þessir safn- og tengivegir, héraðsvegir, sveitavegir, vegirnir sem liggja út til stranda og inn til dala út frá meginhringveginum. Þeir hafa gleymst í vegamáli, viðhaldi og stofnframkvæmdum vega á undanförnum árum. Þegar litið er til þess hefur fjármagn til þessara vega í besta falli á árum áður staðið í stað en hefur núna síðustu árin farið minnkandi sem hlutur af heildarfjárveitingu til vegamála. Það eru einmitt þessir vegir, vegirnir innan byggðar, sem gapa og gefa grundvöll fyrir það samfélag sem þar vex og dafnar, og þarf að hafa tækifæri til að vaxa og dafna. Leiðirnar lengjast sem þarf að keyra börn í skóla, leiðirnar líka sem fólk ekur til og frá vinnu frá heimilum sínum í sveitum eða minni þéttbýlissvæðum. Ferðaþjónustan byggir líka á því að þessir vegir, inn til dala og út til stranda, séu góðir, séu færir og meira en færir, séu enginn þröskuldur í þessari þróun.

Ég hef lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu sem kveður á um að gera stórátak í uppbyggingu á svokölluðum héraðsvegum sem ég kalla, þ.e. þessum safn- og tengivegum. Það er brýnt að auka framkvæmdir í vegum. Sá vegaflokkur má ekki gleymast. Því miður virðist sem það sé engin stefna uppi hvað varðar uppbyggingu á safn- og tengivegum. Fjársvelti þessara vega, hvort sem er til viðhalds eða til stofnkostnaðar, er ein alvarlegasta ógnun við byggð og búsetu í landinu.

Vissulega þarf að byggja upp aðalvegina. Ég kem að því í seinni ræðu minni hversu mikilvægt er að byggja aðalvegina upp, en þetta þarf allt að fara saman. Þau eru mörg, bréfin sem við fáum, þingmenn, frá íbúum úti um land í sveitahéruðum eða sjávarþorpunum sem hvetja til þess að muna eftir þessum vegum. Við höldum ekki neina stóra hópfundi. Þetta fólk sem býr í uppsveitum Borgarfjarðar, Húnavatnssýslu, Skagafjarðar eða Suðurlands boðar ekki til neinna stórra hópfunda eða setur þrýsting á samgönguráðherra um að gefa nú einhver falleg loforð eins og hægt er að gera í hinum stærri þéttbýlum. Þetta fólk getur ekki beitt þeim þrýstingi á ráðherrann en það er ekki þar með sagt að það eigi ekki líka sinn rétt, og við öll. Og einmitt, við stækkum Ísland sem atvinnusvæði, stækkum Ísland sem búsetusvæði ef við komum líka þessum vegum í horf. Gleymum þeim ekki.

Því hef ég flutt þingsályktunartillögu sem ég vona að komi til umfjöllunar um leið og samgönguáætlun, ályktun um að gert verði stórátak í uppbyggingu á þessum vegum, héraðsvegum, safn- og tengivegum, vítt og breitt um landið. Þeir mega ekki gleymast en svo virðist hafa verið í áherslum á síðustu árum. Ég legg áherslu á að breyting verði þar á.