131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:38]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann nefndi mörg brýn verkefni í samgöngumálum, en sérstaklega eitt, og hann er nú málinu kunnugur þar sem hann hefur setið á Alþingi um nokkurt skeið og síðustu tvö kjörtímabil þegar fram fór og tekin var ákvörðun um kjördæmabreytinguna títtnefndu og til varð okkar ágæta Suðurkjördæmi. Forsendur þeirrar kjördæmabreytingar, þeirrar svæðasameiningar sem að einhverju leyti fer fram með slíkri kjördæmabreytingu þar sem Suðurnes, Suðurland, svæðið austur að Hornafirði, verður eitt kjördæmi, varð að sjálfsögðu að liggja því til grundvallar einhver tenging önnur en í gegnum Reykjavík og þá leið sem við þekkjum.

Því var lofað af stjórnarflokkunum að Suðurstrandarvegur væri sérstök samgönguframkvæmd sem lægi kjördæmabreytingunni fullkomlega til grundvallar.

Nú eru liðin nokkuð mörg ár frá því að kjördæmabreytingin var ákveðin og nú erum við á okkar fyrsta kjörtímabili þar sem kosið var eftir þeirri kjördæmabreytingu. Við þekkjum nú þegar hve það að Suðurstrandarvegur sé ekki kominn í gagnið þvælist fyrir því að um sé að ræða svæði sem er einhver heild. Því fer fjarri að svo sé af því að þessa tengingu á milli Suðurlands og Suðurnesja eftir suðurströndinni skortir algjörlega. Hv. þingmaður nefndi að hann hefði viljað sjá þann veg en í samgönguáætluninni bjarmar ekkert fyrir Suðurstrandarvegi, nánast ekki neitt. Það er nánast engu fé varið til hans miðað við hve stór framkvæmdin er, það er rétt byrjað á útboðum sitt í hvorn endann en ekkert sem sér fyrir endann á eða að þessi mikilvæga framkvæmd komist í gagnið.

Tekur hann ekki undir það að stjórnvöld verði að standa við þetta kosningaloforð, þetta loforð gagnvart kjósendum í Suðurkjördæmi (Forseti hringir.) og að samgönguáætlun megi ekki afgreiðast nema að því loforði uppfylltu?