131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir tillögu sinni til þingsályktunar um nýja fjögurra ára samgönguáætlun, í þetta sinn fyrir árin 2005–2008.

Við höfum margoft heyrt í fréttum að í raun sé ekki verið að skera neitt niður heldur séu peningabúntin færð frá einu ári til annars, ef svo má segja. Einhverjum framkvæmdum var frestað í fyrra, framkvæmdum er frestað í ár og það á að fresta framkvæmdum á næsta ári en síðan er okkur sagt að það eigi heldur betur að gefa í þegar nálgast fer næstu kosningar, bæta um og lagfæra þetta allt og kippa í liðinn á árunum 2007 og 2008. Við vitum jú öll að það stendur til að halda næstu alþingiskosningar á vordögum 2007.

Hér er talað um að þetta þurfi að gerast til að slá á þenslu. Það er ástæðan sem gefin er fyrir þessu. Í því sambandi hefur maður m.a. heyrt talað um að svo miklar framkvæmdir séu annars staðar á landinu, til að mynda á Austurlandi, og því sé nauðsynlegt að grípa til svona aðgerða.

Ég get alveg viðurkennt það að ég var svo vitlaus að ég keypti þessa skýringu til að byrja með. En síðan fóru að renna á mig tvær grímur með hvort þetta gæti verið rétt. Ég sannfærðist í raun um að þetta væri ekki rétt, þetta er bara yfirskin, bara fyrirsláttur. Ég sannfærðist um það þegar ég las skýrslu forstjóra Landsvirkjunar um starfsemi hennar, skýrslu sem hann flutti á samráðsfundi Landsvirkjunar þann 8. apríl síðastliðinn, Friðrik Sophusson, fyrrverandi. alþingismaður og einn af frammámönnum í Sjálfstæðisflokknum til margra ára. Ég reikna með að pólitískar skoðanir hans hafi ekkert breyst þó að hann sé orðinn forstjóri Landsvirkjunar og hann sé enn í sama liðinu, ef svo má segja. Mér fannst hann segja merkilega hluti. Hann kom m.a. að þessari goðsögn um að framkvæmdir á Austurlandi gerðu það að verkum að hér væri svo ofboðslega mikil þensla. Mig langar að lesa aðeins úr ræðu hans, með leyfi virðulegs forseta:

„Í umræðu að undanförnu hefur verið gert mikið úr áhrifum stóriðjuframkvæmda á hátt gengi íslensku krónunnar. Það er rétt að viðamiklar stóriðjuframkvæmdir hafa vissulega áhrif á efnahagsástand, bæði staðbundið og á landinu öllu. Þetta er auðséð á Austfjörðum um þessar mundir. Hitt er einföldun að láta sem gengishækkun krónunnar megi einkum rekja til þessara framkvæmda. Nettó innflutningur á erlendu fjármagni er ekki eins mikill og fjárfestingarkostnaður virkjunarinnar og erlendar lántökur gefa tilefni til að ætla. Kemur þar til að aðföng koma að verulegu marki erlendis frá, þar með talið vinnuafl. Skýringa á háu gengi krónunnar er ekki síður að leita í kaupum erlendra sjóða á íslenskum skuldabréfum, húsnæðislánum bankanna og vísi að eignabólu á mörkuðum hérlendis.“

Ég túlka þessi ummæli forstjóra Landsvirkjunar þannig að hann vísi því eiginlega út í hafsauga að hér sé svo mikil þensla út af framkvæmdum fyrir austan. Það má vel vera að mig misminni en mig minnir að Friðrik Sophusson hafi einu sinni verið fjármálaráðherra hér á landi. Það getur verið að mig misminni, ég bjó erlendis á þeim árum, en mig minnir það. Ég ætla að Friðrik Sophusson hafi töluvert vit á efnahagsmálum með alla þá pólitísku reynslu sem hann býr yfir, sá ágæti maður.

Mér finnst ég sjá plottið í þessu öllu saman. Ríkisstjórnarflokkarnir eru einfaldlega að búa sér til sjóð, eins konar jójó eða pendúl, sem þeir notfæra sér eftir eigin hentugleika og haga seglum eftir vindi með tilliti til kosninga á hverjum tíma. Það er náttúrlega sniðugt að geta bætt vel í sjóði til vegaframkvæmda og deilt út peningum til hægri og vinstri á kosningaári eða geta komið með loforð á kosningaári um að framkvæmdir hefjist strax að loknum kosningum. Þetta er náttúrlega freistandi fyrir stjórnmálamenn, að haga seglum með þessum hætti, stjórnmálamenn sem vilja náttúrlega fyrir alla muni hanga á völdunum. Það má vel vera að aðrir flokkar taki þetta upp eftir þeim, ég veit það ekki. En mér finnast þessi vinnubrögð ekki til mikillar fyrirmyndar. Það er nú einu sinni þannig, virðulegi forseti, að þegar stjórnmálamenn fara ríðandi um héruð og lofa framkvæmdum hingað og þangað þá leggja kjósendur við hlustir, kjósendur sem mæta á fundi, kjósendur sem fylgjast með í fjölmiðlum, kjósendur sem trúa þessum loforðum og kjósa stjórnmálamenn inn á þing af því að fólk tekur mark á því sem þeir segja.

Það hlýtur því að valda gríðarlegum vonbrigðum hjá fólki, ég skil það mjög vel og heyri á fólki að þetta veldur fólki gríðarlegum vonbrigðum, þegar það koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum alls konar niðurstöður sem fólk átti ekki von á.

Hér var rétt áðan talað um Suðurstrandarveginn, sem er dæmigert kosningaloforð sem engin innstæða virðist hafa verið fyrir. Ég er einn af þingmönnum Suðurkjördæmis og við höfum margoft verið á fundum, frá því að ég var kosinn á þing fyrir tæpum tveimur árum, með sveitarstjórnarmönnum og öðrum þar sem gengið hefur verið út frá því sem vísum hlut að framkvæmdir hæfust við þennan veg í takt við þau fyrirheit sem gefin höfðu verið. Nú kemur það eins og köld vatnsgusa framan í fólk, bæði fyrir austan fjall, á Suðurlandsundirlendinu og á Reykjanesskaganum, eins og köld vatnsgusa, að það er eins og það hafi aldrei nokkurn tíma staðið til að leggja veginn. (Samgrh.: Það er byrjað að leggja hann.) Það er rétt byrjað að leggja smábút en það er alls ekki nóg, hæstv. samgönguráðherra.

Mér finnst leiðinlegt að sjá að þessi vegur skuli ekki vera inni. Ég hef margoft farið þennan veg, skoðað hann og kynnt mér þessa leið. Þetta er ákaflega falleg leið. En eins og hún er í dag er hún ekki boðleg. Þetta er slæmur vegur í dag en gæti verið mjög góður vegur, ekki síst með tilliti til ferðaþjónustu. Hæstv. samgönguráðherra mælti á dögunum fyrir mjög metnaðarfullri áætlun í ferðamálum fyrir 2006–2015 og ég veit að hann gerir sér fulla grein fyrir því að samgöngur eru lykilatriði í uppbyggingu ferðamála á landinu.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að renna út. Ég ætlaði að segja svo miklu, miklu meira. Ég verð sennilega að koma upp aftur og fá að tala í aðrar átta mínútur. Hér er náttúrlega um mjög merkilegan, stóran og mikilvægan málaflokk að ræða. Ég læt því máli mínu lokið að sinni og hyggst taka þráðinn upp að nýju þar sem honum sleppti, þ.e. með því að tala um blessaðan Suðurstrandarveginn.