131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:07]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Góð fjármálastjórn, segir hv. þingmaður. Afleit pólitík, segi ég, af því að ég held að sá niðurskurður sem hér um ræðir til samgöngumála sé einhver alvarlegustu kosningasvik stjórnarflokkanna frá síðustu kosningum og er þá töluvert sagt. Fullyrða má, ekki síst vegna hinna umfangsmiklu kosningavíxla sem stjórnarflokkarnir og oddvitar þeirra lögðu fram korteri fyrir kosningar með stórbrotnum loforðum um vegabætur hér og samgönguframkvæmdir þar, að þau loforð er verið að svíkja að verulegu leyti í samgönguáætluninni. Fresta, segja sumir, en staðreyndirnar tala sínu máli. Það er einfaldlega verið að slá af margar mikilvægar samgöngubætur og vegaframkvæmdir sem lofað var fyrir síðustu kosningar.

Við höfum talið nokkrar upp, Sundabrautin, Suðurstrandarvegur og fleiri og fleiri verkefni. Birtingarmynd þess niðurskurðar sem hér um ræðir og þeirra svika á stærstu kosningaloforðum formanna stjórnarflokkanna birtast í þeim tölum sem ég hef verið að kynna í dag um verulegan samdrátt í útgjöldum til vegakerfisins sem prósentum af landsframleiðslu, þó ekki sé nema stuðst við tölur síðustu þriggja ára, 2003, 2004 og 2005, úr 1,6% til vegakerfisins 2003 í 0,92% 2005. Verulegur niðurskurður og harkalegur og það átti að sjálfsögðu að fara aðrar leiðir til að ná tökum á ríkisútgjöldum. Það átti að fresta skattalækkunum og skera niður í utanríkisþjónustunni.

Getur hv. þingmaður ekki tekið undir með mér að hér er verið að skera niður þar sem síst skyldi mjög til tjóns? Og eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði fyrr í dag: Hvernig eiga kjósendur að treysta stjórnarflokkunum næst þegar þeir geysast fram með kosningavíxlana sína?