131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:12]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir fagnaði því sérstaklega í upphafi ræðu sinnar að í samgönguáætluninni sé gert ráð fyrir að byggð verði ný flugstöð með tilheyrandi flughlaði á austanverðu flugvallarsvæðinu við Reykjavíkurflugvöll og taldi það mikið happ fyrir landsbyggðarmenn og sömuleiðis fyrir okkur Reykvíkinga að ráðist yrði í flugstöðvarbygginguna.

Ég get tekið undir að það er heppilegt fyrir okkur Reykvíkinga og sömuleiðis fyrir landsbyggðarmenn að það sé flugvöllur í Reykjavík eða við Reykjavík. Ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um að rétt sé að haga málum þannig í skipulagi Reykjavíkur að Reykjavíkurflugvöllur sé í göngufæri frá helstu verslunargötu borgarinnar, Laugavegi. Ég tel að það sé mjög óeðlilegt og ég þekki það ekki á neinu byggðu bóli að flugvelli í sambærilegri borg og Reykjavíkurborg er, sé komið fyrir á öðrum eins stað í bæjarstæðinu. Ég leyfi mér að halda því fram að það hljóti að vera hægt að finna flugvellinum stað annars staðar en í Vatnsmýrinni.

Ég vil taka það fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að innanlandsflugið eigi allt að færast til Keflavíkurflugvallar. Ég tek undir með þeim sem telja að sú breyting mundi leiða til þess að innanlandsflug mundi leggjast niður að miklu eða öllu leyti. En ég hlýt að spyrja hv. þingmann að því: Telur hv. þingmaður eðlilegt að flugvöllurinn sé á þessum stað í Vatnsmýrinni, besta byggingarsvæði borgarinnar? Telur hv. þingmaður að það komi ekki til greina að byggja Reykjavíkurflugvöll einhvers staðar (Forseti hringir.) annars staðar í nágrenni Reykjavíkur eða í borgarlandinu, en á einhverju öðru svæði?