131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn hafa auðvitað á því ýmsar skoðanir hvar flugvöllurinn eigi að vera, og allt gott með það, en eins og ég sagði áðan er búið að taka þessa ákvörðun. Hvort sem sumum þingmönnum sem nú sitja á þingi líkar það betur eða verr er það nú einu sinni þannig, það er búið að taka þessa ákvörðun. Samgöngumiðstöð breytir því ekki, nema það að hún gerir það bara auðveldara að nýta þessa miklu fjárfestingu sem við eigum í Vatnsmýrinni. Hvort við getum breytt flugbrautum þarna er allt í lagi að skoða. Að finna annan stað fyrir flugvöll má líka skoða þegar það hefur verið gert.

Það er reyndar rétt að taka fram að þegar ákvörðunin var tekin um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar var farið í mjög umfangsmikla rannsókn og skoðun á því hvort annað flugvallarstæði væri hér í nágrenninu sem mundi henta jafn vel. Það reyndar fannst ekki. Ég á ekki von á því að það finnist þó að menn leggi í annan slíkan leiðangur.

Ég tel það góðan kost að flugvöllurinn skuli vera svona nálægt miðborginni og kaffihúsunum og lífinu og menningunni í miðbænum. Það er þá bara styttra (Gripið fram í.) fyrir menn að fara þarna á milli, njóta þess sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða, og ég get alls ekki talið það flugvellinum til lasts að hann sé svona nálægt miðborginni. Þarna er auðvitað byggingarland en það er byggingarland víða í borginni. Við gætum haft ýmsar skoðanir á skipulagsmálum í Reykjavíkurborg en ég held að víða mætti taka þar til hendinni og finna mikið og gott byggingarland annars staðar (Forseti hringir.) en í Vatnsmýrinni.