131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:29]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanni Ársælssyni varð tíðrætt um skattalækkanir sem hann taldi ekki skynsamlegar. Ég man ekki betur en að Samfylkingin hefði fyrir kosningar lofað töluverðum skattalækkunum, ekki síður en aðrir flokkar, enda hefur verið mikill vilji fyrir því í samfélaginu að nýta hluta af bættum hag til að lækka skatta.

Ef Samfylkingin hefði náð því marki sínu að forsætisráðherraefnið hefði komist í þá stöðu að stýra ríkisstjórninni og staðið frammi fyrir því að standa við kosningaloforðin um lækkun skatta en staðið jafnframt frammi fyrir því að þróun í efnahagsmálum ógnaði rauðum strikum og samningum verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins, hvað hefði hv. þingmaður gert frammi fyrir þeim staðreyndum? Hefði hann skorið niður í heilbrigðiskerfinu, lækkað framlög þar eða lækkað framlög til skólamála? Hvað hefði hv. þingmaður gert?

Ég tel að það sé mjög ósanngjarnt af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar að nota skattalækkunaráform sem eitthvert barefli á okkur í þessari umræðu vegna þess að ég man ekki betur en að Samfylkingin hefði uppi sömu eða svipuð áform í þeim efnum eins og stjórnarflokkarnir höfðu.