131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:36]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en blandað mér aðeins í umræðuna um Reykjavíkurflugvöll. Það er rétt að taka það fram að á árinu 1995 var öryggi flugvallarins orðið slíkt að eitthvað varð að gera í þeim málum og í ljósi þess var myndarlega tekið á og öryggisatriðum flugvallarins fullnægt með miklum lagfæringum.

Nú talar hv. þm. Jóhann Ársælsson um að ekkert mál sé að flytja völlinn til Keflavíkur eða leggja niður flugvöllinn. Finnst mér eins og eimi af því að það sé einhver lausn sem þurfi að gera fyrir núverandi borgaryfirvöld til þess að leysa úr þeim mikla lóðarskorti og vanda sem er í borginni. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að verði til þessa óyndisúrræðis gripið þá verður náttúrlega að gera verulegt átak í umferðarmálum í miðju Reykjavíkur.

Í annan stað talaði hv. þingmaður um að nauðsynlegt væri að skoða samgöngumálin og umferðina í samræmi við þá stefnu sem boðuð hefur verið um að skoða lengd vega í hverju kjördæmi. Ég held að líka þurfi að skoða þann umferðarþunga sem hefur beinst á höfuðborgarsvæðið. Eins og fram kom í umræðunni fyrr í dag hafa þingmenn Reykjavíkur sýnt mikla biðlund og þolinmæði til framkvæmda úti á landi sem við gerum okkur alveg fulla grein fyrir að nauðsynlegt er að taka á þegar litið er til öryggisþáttar umferðarinnar. En nú er komið að því að hér þarf að gera líka bragarbót á og vel er að því verki staðið samanber Vesturlandsveginn, Suðurlandsveginn og tvöföldun Reykjanesbrautar. Að þessum málum öllum er því vel unnið.

Menn tala um að hér vanti mikið fjármagn til þess að gera stórátak. En horfið bara aftur til ársins 1990 og sjáið hvað hefur gerst í vegamálum á þeim tíma. Það er stórátak. Sem betur fer hafa menn farið þær leiðir að láta hagkvæmnissjónarmiðið og öryggisþáttinn ráða meira en var á árunum áður þegar menn voru í sífelldu kjördæmapoti í þessu máli og jafnvel á löngum spotta sem náði í tvö kjördæmi var byrjað á sitt hvorum endanum og kostaði það þar af leiðandi miklu meira fé en æskilegt hefði talist.