131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:39]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er oftúlkun á mínum orðum að ekkert mál sé að flytja flugvöllinn til Keflavíkur. Ég hélt því hins vegar fram að ef menn önduðu rólega og hugsuðu til þess að flugvöllurinn verður að öllum líkindum hér næstu tíu árin þá gætu þeir ósköp auðveldlega komist að þeirri niðurstöðu eftir að búið væri að gera þennan veg til Keflavíkur allan tvöfaldan þannig að fólk eigi mjög greiða leið þangað, þ.e. þá yrði það bara niðurstaðan þegar menn sæju hvernig þessi vegur kæmi þeim að góðum notum að best væri að flugið yrði í Keflavík. Ég held nú að engum sé í kot vísað að þurfa að fara kannski hálftíma ferð eða eitthvað svoleiðis til þess að fara á flugvöll. Ég held a.m.k. að víðast hvar sé lengra að fara en það frá borgum.

Ég mótmæli því að ég hafi haldið því fram að þetta væri ekkert mál. Ég held því hins vegar fram að það hafi verið óþarflega mikil stífni í þessu máli. Satt að segja hef ég ekki skilið í þeim hanaslag sem hæstv. samgönguráðherra er alltaf kominn í þegar kemur að málefnum Reykjavíkurborgar bæði hvað varðar flugvöllinn og önnur samgöngumannvirki hér. Það er eins og hann sé alltaf kominn á bremsurnar þegar kemur að þessum málum. Ég held að það væri skynsamlegt að hæstv. ráðherra kæmi sér svona í svolítið annað hugarástand þegar hann ræðir við borgaryfirvöld og reyni að ná samkomulagi um hvernig menn eigi standa að vegamálum við borgina. Það er t.d. algerlega óþolandi að menn skuli vera að skylmast hér (Forseti hringir.) um mestu vegaframkvæmd á höfuðborgarsvæðinu eins og gert er þessa daga.