131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:43]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir að staðfesta það enn og aftur sem að vísu hefur komið fram í þinginu að Samfylkingin ætlaði að svíkja kosningaloforð um tekjuskattslækkunina. Það hefur komið mjög skýrt fram í þessari umræðu og ekki farið fram hjá neinum. Það fór ekki fram hjá neinum að Samfylkingin lofaði kjósendum því að lækka skatta. En þeir hafa komið hér hver á fætur öðrum og farið hörðum orðum um það að hér hafi verið farið út í að lækka skatta. En ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann neitt út það.

Ég ætla hins vegar að spyrja hann vegna þess að ég veit að hann er þingmaður Norðvesturkjördæmis og nágranni okkar Reykvíkinga. Hann býr uppi á Akranesi og þekkir vanda þann sem ríkir hér í umferðarmálum. Það er ekki alveg nákvæmt hjá félaga mínum og flokksbróður hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni þegar hann segir að það hafi eingöngu verið vegna þess að menn voru að deila um leiðina við Sundabrautina að hún hafi tafist, þó það sé einn þáttur svo sannarlega. Málið er einfaldlega þetta: R-listinn hefur ekki haft neinn áhuga á Sundabrautinni, nákvæmlega engan. Allt sem við höfum gert í Sundabrautinni hefur komið til vegna þess — og það er hægt að fletta því einfaldlega upp og ég get gert það fyrir hv. þingmann — að sjálfstæðismenn hafa ýtt eftir því, allt saman.

Það sem ég vil fá að vita er einfaldlega þetta: Er hv. þm. Jóhann Ársælsson sammála þeirri áherslu R-listans að hafa ekki gatnamótin við Miklubraut og Kringlumýrarbraut mislæg? Þar er mesti tappinn fyrir umferðina í borginni og þar af leiðandi fyrir fólk, t.d. af Vesturlandi sem keyrir inn í borgina og sækir hér þjónustu. Er hv. þingmaður sammála því að hafa ekki gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavíkurborg mislæg?