131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í dag hefur verið fjörug umræða um samgönguáætlun eins og gjarnan vill verða. Mikið hefur verið rætt um misskiptingu fjármuna og átökin á milli landsbyggðar og þéttbýlis eru áberandi, bæði hvað varðar vegafé og flugvallarframkvæmdir. Eins eru nokkuð hressandi þessi átök á milli sjálfstæðismanna. Ég verð að segja að þetta er með skemmtilegri dögum í þinginu þegar snaggaralegar umræður fara fram um samgönguáætlun.

Tímans vegna ætla ég ekki að fara djúpt í sjónarmið mín hvað varðar flugvallarmálið hér í Reykjavík eða Sundabrautina. Varðandi flugvöllinn og samgöngumiðstöð vil ég eingöngu segja að engar ákvarðanir í samgöngu- eða skipulagsmálum eru svo merkilegar að það megi ekki endurskoða þær. Varðandi Sundabraut vil ég segja að það er auðvitað skandall að ekkert framkvæmdafé skuli ætlað í Sundabrautina á þeirri áætlun sem við ræðum um hér.

Virðulegi forseti. Með þessari samgönguáætlun fylgir hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson í fyrsta sinn úr hlaði umferðaröryggisáætlun. Ég verð að segja að það er fagnaðarefni þótt ég verði að viðurkenna að mér finnst hún ansi lítil, aðeins þrjár blaðsíður af 126 síðna þingskjali. Ég hefði vænst svolítið þyngra plaggs. En þó er vert að þakka fyrir það að hún skyldi ekki hafa gleymst. Þessi fyrsta umferðaröryggisáætlun sem hæstv. ráðherra Sturla Böðvarsson fylgir úr hlaði kemur til af breytingum á verkaskiptingu Stjórnarráðsins. Síðasta umferðaröryggisáætlun var á forræði dómsmálaráðherra. Hún var gagnrýnd harkalega, m.a. af þeirri sem hér stendur, fyrir að hvorki fylgdi henni framkvæmda- né fjárhagsáætlun. Í þeirri áætlun sem hér er sett fram er reynt að bæta úr þessu en þó verð ég að segja að hvorugt er nægilega skýrt fram sett að mínu mati.

Virðulegur forseti. Hæstv. samgönguráðherra virðist afar stoltur af áherslum sínum í umferðaröryggismálum. Eitt af stærstu áhersluatriðum ráðherrans á umferðarþingi í nóvember síðastliðnum var að nú ætti að fara að auka fjárframlög til umferðaröryggismála svo um munaði: Á næstu fjórum árum færu 400 millj. kr. á ári til þessa málaflokks, 1,6 milljarðar kr. á næstu fjórum árum. Um þessa yfirlýsingu ráðherrans var talsvert fjallað í fjölmiðlum í kringum umferðarþingið, enda er krafa almennings um átak í þessum efnum afar hávær. Nú er komin út hin eiginlega áætlun og þá kemur auðvitað í ljós að ráðherrann gengur strax á bak orða sinna. 400 millj. kr. á ári hafa lækkað um 15 millj. kr., 1.600 milljónirnar eru sem sagt komnar niður í 1.540 millj. kr.

Hæstv. forseti. Hugtakið nýframkvæmdafé er viðtekið í umræðum um vegáætlun. Hér hefur það verið notað vítt og breitt en nú ætla ég að freista þess að yfirfæra þetta hugtak, nýframkvæmdafé, yfir á umferðaröryggisáætlun.

Það er auðvitað ekki svo að allar þessar 385 millj. kr. sem ætlað er að renni til umferðaröryggismála árlega í fjögur ár séu nýframkvæmdafé. Það er ekki eins og hæstv. ráðherra Sturla Böðvarsson sé fyrsti ráðherrann sem ákveður að setja fjármuni til umferðaröryggismála. Á hverju ári hefur í fjárlögum verið eyrnamerkt fé til umferðaröryggismála, auk þess sem stofnanir ráðuneytisins setja fjármuni til þeirra. Ráðherrann veit betur en ég hversu miklir þeir fjármunir hafa verið árlega. Nú spyr ég, virðulegi forseti: Hve miklum fjármunum er hæstv. ráðherra að bæta við til umferðaröryggismála? Mínar heimildir herma að það séu eingöngu um 150 millj. kr. sem bætast við þá fjármuni sem fyrir eru í málaflokknum. Ég spyr hvort það sé rétt? Ef við eigum að geta tekið þátt í yfirlýsingum og ánægju hæstv. ráðherra um aukið vægi umferðaröryggismála þá er nauðsynlegt að fá það fram.

Hæstv. forseti. Þá vil ég gera athugasemd við það hvernig framsetning áætlunarinnar er í þessu skjali. Henni er að mínu mati mjög ábótavant. Það er ekki nokkur leið að sjá hvað eigi í raun að gera fyrir alla þessa fjármuni. Það er ámælisvert. Listinn er mjög almennur. Þar er fjallað um 687 millj. kr. á fjórum árum í hraðakstur, bílbeltanotkun, eftirlit, áróður og fræðslu. Obbobbobb — bíddu nú við, hvað inniber þetta allt saman? Hverjir eiga að fá þessa fjármuni? Hvaða verkefni á að vinna? Eyðing svartbletta, 312 millj. kr. Hvaða svartblettum á að eyða? Hvar eru þessir svartblettir sem hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir að verði eytt? Forvarnir erlendra ökumanna, áróður, skilti og fleira.

Hæstv. forseti. Það er alveg nauðsynlegt að hér sé betur að verki staðið og að áætlunin sé sundurgreindari og gegnsærri en raun ber vitni. Við verðum að geta treyst því að arðsemi framkvæmda verði látin ráða í þessum málaflokki. Það eitt er réttur mælikvarði. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra sé að hlusta á mig. Verði ekki gengið út frá þessu gæti ráðherrann hreinlega tekið ákvarðanir um framkvæmdir út frá eigin hagsmunum eða út frá annarlegum pólitískum sjónarmiðum, eytt t.d. öllu þessu fé meira eða minna í eigið kjördæmi, í kjördæmapoti.

Nei, virðulegi forseti. Ef arðsemi framkvæmdanna verður látin ráða er t.d. tryggt að svartblettalagfæringar verða gerðar í kringum höfuðborgarsvæðið og verði þá í forgangi. Það er einu sinni þannig að á vegunum sem liggja að og frá höfuðborgarsvæðinu eru margir hættulegustu svartblettirnir í vegakerfi okkar. Þetta verður hæstv. ráðherra að tryggja. Það ætti auðvitað að vera miklu auðsærra í áætluninni hvaða aðgerðir verði farið í á sviði umferðaröryggis á næstu fjórum árum, alveg eins og það er ljóst í hvaða vegaframkvæmdir verður farið.

Virðulegi forseti. Þann 12. júlí á síðasta ári kynnti hæstv. samgönguráðherra það sem hann kallaði aðgerðaráætlunina „Breytum þessu!“. Þetta var og er umferðaröryggisáætlun í tíu liðum sem samgönguráðherra sagðist líta á sem loforðalista þeirra sem starfa að umferðaröryggismálum þjóðarinnar. Sjöundi liðurinn á loforðalistanum hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ég mun leggja fram endurskoðaða umferðaröryggisáætlun sem verður á ábyrgð Umferðarstofu að fylgja eftir. Vinna við hana er þegar hafin. Ný áætlun verður lögð fram með tímasettum aðgerðum til fjögurra ára, skýrum markmiðum, kostnaður áætlaður og ábyrgð verkefna verður skýr.“

Hæstv. forseti. Ekkert af þessu er til staðar í umferðaröryggisáætluninni sem hæstv. ráðherra leggur hér til. Engin tímasett markmið og engar tímasettar aðgerðir. Markmiðin eru kannski nokkuð skýr. Kostnaður er ekki áætlaður nema í slumpum í fjögurra ára áætlun, sem engin leið er að lesa úr. Það er heldur ekki nægilega skýrt á ábyrgð hverra viðkomandi verkefni verða. Hæstv. ráðherra á eftir ákveðna þætti í verkefni sínu sem mér sýnist einsýnt að verði bætt úr næst þegar hann talar fyrir umferðaröryggisáætlun og helst fyrr.

Virðulegi forseti. Tími minn er að verða búinn en ég verð að segja að það er pínlegt að horfa á blessaðan ráðherrann, þar sem hann á erfitt með að dylja pirring sinn út í Reykjavíkurlistann. Dagurinn í dag er alls ekkert öðruvísi en aðrir dagar hvað þetta varðar en ég ætla samt að benda hæstv. ráðherra á að ástæðan fyrir fækkun umferðarslysa í Reykjavík er umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurlistans, sem er stórglæsilegt plagg upp á nokkra tugi blaðsíðna, með tímasettum og kostnaðargreindum markmiðum. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra ætti að taka Reykjavíkurlistann sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar.