131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:59]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir átti sig á að umferðaröryggisaðgerðir verða ekki mældar í pappír. Þær verða mældar í framkvæmdum og aðgerðum á sviði umferðaröryggismála.

Það liggur alveg ljóst fyrir að sú samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar leggur mikla áherslu á að bæta úr í vegakerfinu, lagfæra það sem helst þarf til að auka umferðaröryggi. Þess vegna er það sem fjármunir til uppbyggingar í vegakerfinu eru jafnmiklir úti um land, á þjóðvegunum, eins og raun ber vitni.

Sem betur fer hefur náðst heilmikill árangur á höfuðborgarsvæðinu í umferðaröryggismálum. Það er samstillt átak margra aðila. En stóru viðfangsefnin eru á þjóðvegunum til þess að fækka hinum alvarlegu slysum. Það lít ég á sem meginverkefni og ég lít á samgönguáætlunina sem eina allsherjarumferðaröryggisáætlun. Til hliðar við það er síðan áætlun sem er skýrð þarna og er ekki skorin niður, það er ekki rétt hjá hv. þingmanni. Ég sagði í ræðu að það væru á fjórða hundrað milljónir sem væru áætlaðar á ári í þessar sérstöku tilgreindu umferðaröryggisaðgerðir sem eru í áætluninni. Ég vissi nákvæmlega þegar ég flutti þá ræðu að það yrðu 385 milljónir, ég nefndi það ekki upp á krónu, sem þingmaðurinn reynir að gera tortryggilegt núna og tala um niðurskurð.

Umferðaröryggisáætlunin er í smáatriðum enn þá í vinnslu (Forseti hringir.) og birtist að hluta til í samgönguáætluninni núna (Forseti hringir.) en síðar verður gerð frekari grein fyrir henni.