131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að umferðaröryggisáætlunin skuli enn vera í vinnslu og við skulum eiga eftir að sjá hér vonandi innan tíðar stærra plagg en þrjár blaðsíður á þingskjali með þá tímasettum markmiðum og sundurgreindri framkvæmdaáætlun. Það er vel.

En það að hæstv. ráðherra skuli halda því fram að umferðaröryggi verði ekki mælt í pappír má auðvitað til sanns vegar færa. Hins vegar veit ég alveg að umferðaröryggisáætlunin sem hefur verið í gildi í Reykjavík hefur valdið straumhvörfum í þessum málum fyrst og fremst vegna þess að hún er vandað plagg sem ákveðnar stofnanir innan borgarkerfisins keyra eftir. Það eru tímasett markmið, þau eru kostnaðargreind hvert fyrir sig og þetta er önnur umferðaröryggisáætlunin sem við keyrum í Reykjavíkurborg og aðferðin við að búa hana til og fara eftir henni skilar sér í þeim árangri sem ég gerði grein fyrir í máli mínu.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki í andsvari sínu hversu mikið þetta væri sem ég kallaði nýframkvæmdafé til umferðaröryggismála. Það er alveg nauðsynlegt að þingheimur fái að vita það hversu mikið hæstv. ráðherra er að auka vægi þessa málaflokks. Við höfum verið að setja fjármuni í umferðaröryggi hingað til. Hversu mikið er hæstv. ráðherra Sturla Böðvarsson að auka þetta fé? Hversu mikið er hann að leggja til viðbótar við það sem við áður höfum ákveðið að leggja?