131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:07]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða samgönguáætlun og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerir að umtalsefni umferðaröryggismál og er það vel. En út frá þeirri umræðu sem hefur orðið hér er eðlilegt að spurt sé: Hvað eru umferðaröryggismál í raun og sannleika? Mér finnst það vefjast fyrir hv. þingmanni.

Ég sé ekki betur en að allar þær nýframkvæmdir sem eru í samgönguáætlun 2005–2008 séu meira og minna af toga umferðaröryggismála. Ég get nefnt sem dæmi nýframkvæmd sem nú er búið að ákveða að fara í og er hafin á Hellisheiði, sem er 400 millj. kr. nýframkvæmd, þar sem lagðar eru af tvær afskaplega slæmar beygjur þar sem hafa orðið slæm slys. Jafnframt er verið að leggja af stefnugreind vegamót við Þrengslavegamót, sem verða nú mislæg. Ég lít svo til að þessar 400 milljónir séu fyrst og fremst umferðaröryggismál og númer tvö muni þær flytja meiri umferð á þeim vegi, fyrst og fremst er það það.

Að nefna bara þessar litlu þrjár blaðsíður og 300 milljónir, það er bara alrangt að mínu viti. Ég lít svo til að þær 300 milljónir að auki sem eru á þessari samgönguáætlun séu líka að stórum og stærstum hluta til umferðaröryggismála.

Síðan má ekki gleyma því, hv. þingmaður, að vetrarþjónustan er mikið umferðaröryggismál.