131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:14]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér fer fram hefðbundin umræða um samgönguáætlun þar sem hverjum þykir sinn fugl fagur og menn takast á um einstök verkefni eins og gengur. Oft hefur umræðan verið lífleg og svo er einnig nú og það er út af fyrir sig gott og eðlilegt.

Þær tillögur sem liggja fyrir í þingskjalinu hafa verið unnar og undirbúnar í allnokkurn tíma og mikil vinna liggur þar að baki. Ég tel að hér sé mjög gott starf unnið þó svo að auðvitað hafi menn ólíkar skoðanir á ýmsu því sem hér kemur fram. Ég vil leyfa mér að færa fram þakkir til þeirra sem unnu að málinu fyrir framlag þeirra.

Í greinargerð með þingsályktuninni er fjallað um ýmis málefni, mikilvæg mál sem varða samgöngumál almennt í landinu. Þar er fjallað um þróunarmál, rannsóknir, stefnumótun o.s.frv. Þar er einnig fjallað um mögulegar leiðir til fjármögnunar, framkvæmda og form framkvæmda almennt. Síðan kemur auðvitað fram í greinargerð að áætlunin byggir á fjórum meginmarkmiðum, sem eru um greiðari samgöngur, hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og öryggi í samgöngum. Þetta eru auðvitað markmið sem við höfum fjallað um og unnið hefur verið eftir.

Fram hefur komið í umræðunni að hæstv. ráðherra mun leggja fyrir Alþingi sérstaka umferðaröryggisáætlun sem þingið mun fjalla um, þar sem fjallað verður um sérstakar aðgerðir varðandi umferðaröryggi. Ber að fagna því að við séum komin það langt á leið.

Í áætluninni er fjallað um hafnaáætlun, flugmálaáætlun og vegáætlun. Í hafnaáætluninni er unnið samkvæmt stefnumótun sem birtist í bráðabirgðaákvæði hafnalaga frá 2003, þ.e. að um fyrstu tvö ár áætlunartímabilsins gildi eldri hafnalög. Segja má að á sínum tíma hafi verið ákveðið samkomulag um að svo skyldi vera milli þingsins og hafnanna í landinu. Ég fagna því sérstaklega að það stendur og eftir því er unnið. Eftir árið 2006 taka hins vegar gildi þau hafnalög sem eru í gildi og hafa verið samþykkt þar sem verður nokkur breyting á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, eða hafnanna, og byggjast á flokkun hafna.

Þær tillögur sem birtast í hafnaáætlun eru að venju unnar í samráði Siglingastofnunar og hafnanna í landinu. Það er samskiptaform sem hefur verið við lýði alllengi og er eðlilegt.

Hér hefur einna mest farið fyrir umræðu um Reykjavíkurflugvöll í dag. Menn hafa tekist á um það og er ekkert nýtt í þessum sal. Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er og fagna þeim hugmyndum sem uppi eru um byggingu samgöngumiðstöðvar á því svæði. Ég tel því að mjög mikilvægt sé að flugvöllurinn haldi sér, það eru að vísu skiptar skoðanir um það en þetta er mín skoðun, vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að samgöngur við höfuðborgina af öllu landinu séu sem greiðastar og bestar og ég tel að það sé best tryggt með þessum hætti. Auðvitað ber umræðan merki um hvernig skipulagsmálum borgarinnar hefur verið hagað síðustu áratugina. Borgina vantar byggingarland og þess vegna ræða menn um að flytja flugvöllinn.

Virðulegi forseti. Í umræðunni um samgönguáætlun fer auðvitað mest fyrir umræðu um vegamál. Það er mjög eðlilegt. Það er víða mikil þörf fyrir bættar samgöngur. Einstök svæði á landinu eru illa sett hvað varðar vegasamgöngur. Þar ber fyrst og fremst að nefna Vestfjarðasvæðið og norðausturhornið. Það hafa verið síauknar kröfur um veggæði, styttingu vegalengda, umferðaröryggi o.s.frv. Ákall um aukið fjármagn hefur því farið vaxandi.

Sú þróun hefur einnig átt sér stað að þungaflutningar hafa aukist mjög mikið á vegakerfinu eftir að strandflutningar hafa nánast lagst af. Það er auðvitað mjög miður að ekki skuli vera hægt að halda uppi strandflutningum kringum landið vegna þess að þjóðvegirnir eru ekki undir það búnir að taka við svo mikilli þungaumferð, burður og breidd veganna er með þeim hætti að vegakerfi okkar er því miður illa undir það búið.

Í allri umræðu um fjármagn til vegagerðar verðum við að hafa í huga að við höfum verið með mun meira fjármagn til vegagerðar en áður fyrr og ber auðvitað að fagna því. Í umræðunni hafa menn tekist á um þetta, m.a. er því haldið fram, sem ég ætla ekki að vefengja, að það sé lægra hlutfall af landsframleiðslu nú til vegamála en áður fyrr, en menn verða náttúrlega að átta sig á því í því samhengi að við leggjum miklu meira hlutfall til samneyslunnar en áður fyrr. Það má kannski segja að í því birtist ákveðin forgangsröðun í ráðstöfun fjármagns. Það hefur auðvitað verið kallað mjög mikið eftir því að fjármagn verði aukið til samneyslunnar. Það birtist í þessu. Það eru því ýmsar skýringar á þessu og menn verða að gæta þess að horfa á heildarmyndina og gæta sanngirni í umræðunni.

Virðulegur forseti. Í umræðu um vegáætlun takast menn að sjálfsögðu á um einstök verkefni. Menn takast á milli kjördæma o.s.frv. Það er eðlilegt, menn eru að berjast fyrir umbjóðendur sína þannig að sú umræða er eðlileg. Ég verð hins vegar að segja að mér hefur fundist bera á því hjá einstökum ræðumönnum í dag að þeim hefur hlaupið kapp í kinn og mér finnst sanngirnin ekki hafa verið höfð að leiðarljósi. Ég vil taka dæmi af hv. þm. Gunnari Birgissyni sem kom og ræddi um vegamál í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, með að mínu mati gríðarlega ósanngjörnum hætti, vegna þess að þar horfum við fram á mörg verkefni sem þarf að vinna. Hv. þingmaður þekkir mætavel vegakerfið í því kjördæmi. Ég legg áherslu á að menn gæti sanngirni í umræðunni um leið og þeir takast á um þessi mál en fari ekki út af veginum í þeim efnum.

Hér hefur mikið verið rætt um Sundabraut. Ég legg áherslu á að Sundabrautin er að mínu mati mikið hagsmunamál fyrir fólk í Norðvesturkjördæmi. Áhugi okkar er því mikill á byggingu Sundabrautar.

Tíminn flýgur. Sú áætlun sem hér birtist ber merki um að verið er að fresta framkvæmdum. Það er til komið vegna þess að menn hafa talið nauðsynlegt að gera það til að bregðast við þenslu í efnahagskerfinu. Það er umdeilt en að mínu mati er mjög mikilvægt að við gætum okkar í efnahagsmálunum. Meginmarkmið okkar er að halda uppi efnahagslegum stöðugleika. Ákvörðunin um frestun framkvæmda er auðvitað liður í því. Ég tel að það beri merki um ábyrgð í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Segja má (Forseti hringir.) að frestun vegaframkvæmda sé mun minna mál en (Forseti hringir.) að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika og ábyrgð í ríkisfjármálum.