131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:28]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi tel ég mikla þörf fyrir samgöngumiðstöðina. Það liggur fyrir að Reykjavíkurflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni í allnokkuð mörg ár og við erum með aðrar samgöngur á því svæði þannig að það er mikil nauðsyn fyrir samgöngumiðstöðina. Ég treysti mér ekki til að spá mjög langt fram í tímann um það hvað menn munu taka til bragðs í framtíðinni varðandi Reykjavíkurflugvöll. Það má vel vera að einhvern tímann í framtíðinni komist menn að þeirri niðurstöðu að færa hann „eitthvert annað í nágrenninu“, eins og orðað var. Ég ætla ekkert að spá um það.

Ég tel mikla þörf fyrir samgöngumiðstöðina og ég er þeirrar skoðunar að völlurinn eigi að vera þar sem hann er og búið er að ákveða.