131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:33]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson og margir fleiri, er áhugamaður um að þetta gjald í Hvalfjarðargöngin verði sem lægst og nýverið náðist mikill árangur í því að lækka það gjald. Fyrirtækið sem á og rekur göngin endurskipulagði fjármál sín, þannig að þeir náðu þeim árangri að geta lækkað gjaldið. Þetta með virðisaukaskattinn er mikið rætt. Ég get því miður ekki svarað því nákvæmlega núna hvernig því máli muni reiða af. Umræða hefur verið milli Spalar og fjármálaráðuneytisins um málið og mér skilst að það sé í gangi. Við skulum sjá hvað kemur út úr því. Ég legg áherslu á að það er Spölur sem á mannvirkið samkvæmt öllum samningum og lögum og öðru sem gilda um það. Ríkið á ekki þessa framkvæmd. Það er auðvitað meira og minna á höndum Spalar að lækka gjaldið og þeir hafa náð góðum árangri í því. Ég tel ástæðu til að nota tækifærið og hrósa þeim fyrir það.