131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:42]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef Bretar hefðu ekki byggt þennan flugvöll í Vatnsmýrinni, lætur þá einhver sér detta í hug að menn hefðu byggt nýjan flugvöll þarna núna? Ég er hræddur um að það dytti engum manni í hug að reisa flugvöll í Vatnsmýrinni ef hann hefði ekki verið til þarna áður. Samkomulög sem misvitrir menn gera sín á milli geta verið mjög slæm.

Menn tala hér um sanngirni. Er það sanngirni að láta Reykvíkinga keyra, tugi þúsunda manna, kannski hálftíma lengur á dag af því byggðin er orðin svo óskaplega dreifð að menn eyða heilum og hálfum klukkutíma í að keyra í vinnu og þurfa tvo bíla á hverja fjölskyldu í staðinn fyrir einn. Það er ekki sanngirni í landsbyggðarþingmönnum. Mér finnst að þeir ættu að horfa pínulítið til alls þess tíma af ævi sinni sem Reykvíkingar nota til að keyra til og frá vinnu.