131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:44]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt það sem ég óttast, að byggð verði samgöngumiðstöð. Og af því að komin er samgöngumiðstöð og af því að kominn er flugvöllur verður ekki hægt að flytja hann, aldrei nokkurn tímann. Reykvíkingar sitja uppi með að þurfa að keyra lengst, lengst austur í sveitir heim til sín af því að ekki er til byggingarland nálægt þar sem þeir vinna.

Ég vil að menn endurskoði þessa áætlun og sýni pínulitla sanngirni í garð Reykvíkinga, líka Reykjavíkurborg, að hún sýni sínum eigin borgurum pínulitla sanngirni og sendi þá ekki í 20 mínútna til hálftíma óþarfa keyrslu á hverjum einasta degi til vinnu. Það þarf að þétta byggðina þannig að við séum ekki með svona óskaplegan kostnað og tíma í að keyra, fyrir utan öll vegamannvirkin í borginni sem kosta líka óhemjufé.