131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:47]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að áðan hafa farið fram rannsóknir í Hvassahrauni og á Sandskeiði. Það er talin mjög óásættanleg aðstaða fyrir innanlandsflug að byggja þar flugvöll, auk þess sem við erum að tala um slíkar upphæðir, hv. þm. Pétur Blöndal, að það er rétt að leyfa þessu máli að anda næstu 15–20 árin og sjá svo hvað setur.

Það var annað sem ég kom hér að og hlýtur að skipta þingmann Reykjavíkur miklu máli, það eru 1.200 störf sem skapast hér við flugvöllinn og það er hinn viðskiptalegi þáttur sem er um 13–14 milljarðar. Þeir skipta líka máli. Er þingmaður Reykvíkinga með öðrum orðum að segja: Það skiptir ekki nokkru máli fyrir Reykjavík, 1.200 störf eða 12–14 milljarðar í viðskiptalegu tilliti? Skiptir það engu máli?