131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:09]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara hárrétt hjá hæstv. samgönguráðherra að verið er að framkvæma núna meira en nokkurn tíma áður. Það sem hefur gerst í þessu dásamlega ríki er að kakan hefur stækkað. Það hefur hvergi nokkurs staðar í Evrópu, varla nokkurs staðar í heiminum orðið slíkur hagvöxtur og á Íslandi. Þessi efnahagsvél sem okkur hefur tekist að búa til og betrumbæta á síðustu 15 árum er einhver afkastamesta efnahagsvél heimsins. Það er þess vegna sem lífskjör Íslendinga vaxa svo hratt sem raun ber vitni. Það er þess vegna sem hagvöxturinn er hér meiri en í öðrum löndum.

Við höfum efni á því núna, hvert prósent landsframleiðslu og hvert prósent sem við miðum við er miklu stærri tala og miklu meira magn. Við verðum að setja þetta allt í samhengi þegar við ræðum um þetta. Með aukinni velsæld og aukinni auðsöfnun þjóðarinnar hefur hún auðvitað efni á að leggja meira til samhjálparinnar eins og hún er að gera. Það eru hinar stóru breytingar sem hafa verið. Miklu meiri peningum er varið til samhjálpar en áður. Því hafa menn staðið fyrir og verið stoltir af. Við eigum að vera stoltir af því.

Við erum að framkvæma hér meira en nokkurn tíma áður. Það er staðreynd, herra forseti, í magni. Hins vegar getum við hver og einn komið hér og sagt: Miðað við stöðu Íslands, hins stóra ríkis, svo stórrar eyju, með svo fáa íbúa væri auðvitað æskilegt að leggja til enn meiri peninga. Ég ætla alveg að taka undir það með hv. þingmanni. Það er veruleg ástæða til þess af því að við höfum alveg sambærilega stöðu á við allar aðrar þjóðir heimsins, nema kannski í vegamálum vegna þess hve við erum fá og búum á stórri eyju.