131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:11]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að hv. þingmaður hafi í reynd svarað þeim spurningum sem vöknuðu hér í lokin þegar hann sagði eitthvað á þá leið að líkast til værum við aftar á merinni en flest Vestur-Evrópuríki hvað varðar vegamál. Ég var aðeins að draga það fram að áherslur í vegamálum — og notaði þá sem hlutfall af ríkisútgjöldum — hefðu dregist saman um meira en helming frá árinu 1970. Í ljósi þeirrar stöðu sem við búum við, við búum í stóru, dreifbýlu landi með löngu vegakerfi, ef svo má að orði komast, þá er mikilvægt að þungar áherslur séu einmitt á byggingu samgöngumannvirkja. Ég var aðeins að draga það fram að þessar áherslur eru ekki jafnmiklar og þær voru áður. Ég heyrði það hér í lokin að hv. þingmaður er mér algerlega sammála.