131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:25]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvaða ráð það ætti nú að vera sem hv. þingmaður hefur uppi í erminni til að bæta þann skaða sem sannarlega yrði. Þetta ylli skaða fyrir þjónustuna í borginni. Hvernig á miðborgin að byggjast upp og verða eitthvað sem í alvöru kallast miðborg ef fólk hefur ekki aðgengi að borginni? Það er alveg ljóst að stjórnsýslan yrði flutt meira og minna héðan úr miðborginni.

Svo er ekki sísti þátturinn að menn hafa komist að því að innanlandsflugið muni hreinlega ekki lifa það af ef það yrði flutt til Keflavíkur. Það er nú einfaldlega svo að ferðatíminn yrði svo langur með því að hafa þetta flug í Keflavík, fyrir utan aukinn flugtíma, að þar með yrði þetta rothögg fyrir innanlandsflugið.

Af því hv. þingmaður sagði að ekki yrði fækkun á störfum við þetta þá fullyrði ég að svo verður. Ég fullyrði að svo verður í innanlandsfluginu.

Allt skiptir þetta því mjög miklu máli fyrir miðborgina. Ég held að ef hv. þingmaður skoðar skipulagsmál í Reykjavíkurborg þá megi finna ýmsar leiðir til þess að efla íbúðabyggð vítt og breitt um borgina því víða er illa staðið að því. Til eru ýmis önnur ráð en þau að flytja flugvöllinn. Auðvitað skiptir svo gífurlega miklu máli að fá þessa samgöngumiðstöð við völlinn. Það er bara eitt meginatriðið til þess að miðborgin geti lifað.