131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:28]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef flutningur Reykjavíkurflugvallar úr miðborginni mundi þýða að stjórnsýslustofnanirnar færu þaðan líka þá yrði nú ekki mikið eftir af miðborginni. Það segir sig alveg sjálft.

Það sem hefur vantað í miðborgina og hefur skapað hvað mestan vanda varðandi skipulagsmálin þar er að þar er ekkert ofsalega mikið pláss. Höfuðstöðvar helstu fyrirtækjanna eru t.d. í Borgartúni. Að vísu orsakast margt af þessu út af sofandahætti og lítilli fyrirhyggju í skipulagsmálum hjá meiri hluta Reykjavíkurborgar. En við værum án nokkurs vafa að fá mikil sóknarfæri með því að fá þetta land til að geta skipulagt þar margvíslega starfsemi. Það liggur fyrir og ég fór yfir það að við þurfum að huga að samgöngum til þessa svæðis. Það segir sig alveg sjálft.

Við höfum verið að byggja upp vegakerfi út um allt land til þess að auðvelda fólki m.a. að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu. Ég man þá tíð og það er ekkert rosalega langt síðan að maður var þrjá og hálfan tíma að keyra úr Borgarnesi til Reykjavíkur, þrjá og hálfan tíma. Nú eru þetta um 40 mínútur — ég lendi kannski í (Gripið fram í.) vandræðum ef ég held mig við það — úr Grafarvogi, þ.e. úr Grafarvogi, virðulegi forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hver tíminn er. Það er eitthvað lengur. En í það minnsta er um að ræða ansi mikinn mun. Til þessa tek ég tillit þegar ég lít á samgöngur á Íslandi. Ég sé ekkert eftir fjármunum í samgöngur. Ég sé ekkert eftir fjármunum í samgöngur úti á landi. Ég geri það ekki. Ég held hins vegar að við megum ekki láta okkar eftir liggja við að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég fór yfir það áðan. Í því felast hagsmunir allra. Ég lít á þetta í heildarsamhengi. Ég held að þetta sé verkefni til nokkurra ára, þ.e. að færa Reykjavíkurflugvöll og bæta samgöngur í leiðinni, bæði í Reykjavík og út um allt land.