131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:16]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil sem minnst blanda R-listanum í umræðurnar hér og hvernig staðið er að stjórnun borgarinnar. Ég vil líta á flugvöllinn sem sérstakt verkefni fyrir okkur öll og innanlandsflugið. Ég fagna því að leggja eigi af núverandi flugvallarbyggingu og þjónustu á núverandi stað á Reykjavíkurflugvelli, sem er algjörlega ósæmandi fyrir okkur að hafa eins og er í dag, og byggja þjónustuna upp á öðrum stað. Ég tel að svæðið í kringum Reykjavíkurflugvöll geti nýst miklu betur til byggðar en nú er og stefnt er að því. Ég tek ekki undir orð þeirra sem eingöngu líta á svæðið sem mjög dýrmætt út frá sjónarmiðum þéttingar íbúðabyggðar og þeirra sem tala fyrir því að þá sé hægt að leggja af ákveðna bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu, rétt eins og allir muni bæði búa og vinna í Vatnsmýrinni. Það yrði ekki svo en það er örugglega hægt að koma með góðum hætti meiri byggð inn á flugvallarsvæðið.

Hvað varðar Stórasand, hæstv. forseti, tek ég ekki undir áhuga hv. þingmanns um að leggja veg yfir Stórasand þó svo að það stytti leiðina á milli Akureyrar og höfuðborgarinnar. Ég tel ekki nægilegt að horfa eingöngu á styttingu leiða, það þarf líka að horfa á vegastæðið, hæð yfir sjó, umhverfisáhrif af veginum og um hvaða svæði hann á að fara. Ég tel miklu nær að stórefla frekar uppbyggingu hringvegarins, breikka hann og byggja hann þannig að hann taki við meiri umferð og það verði sú leið sem við getum talað um sem styttingu því að það mun verða veruleg stytting á leiðinni með áframhaldandi uppbyggingu hringvegarins.