131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:27]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að það sé enginn misskilningur vil ég taka undir orð hv. þm. Helga Hjörvars um að samgöngur við höfuðborgarsvæðið eru grundvallaratriði, ekki bara fyrir Reykvíkinga heldur landsmenn alla. En ég er þeirrar skoðunar að allar samgöngur, ekki bara sumar samgöngur, séu mikilvægar fyrir borgina til að hafa samstarf og samþættingu alls þess sem fram fer í landinu. Til að stunda atvinnu á landsbyggðinni þarf oft að eiga hér fundi og mæta til starfa, það þarf að komast til Reykjavíkur og eins og staðan er getur maður verið mættur í vinnu hálfníu. Það er mikill munur.

Varðandi Vatnsmýrina verð ég að segja að þó að ég sé fæddur Reykvíkingur sé ég ekki hvers vegna menn sjá ekki að þetta er nes, útnes í Reykjavík, og byggðin er að vaxa í allt aðrar áttir og þar er mikilvægt landsvæði. Þess vegna tel ég að þessi blettur, þessi mýrarfláki þarna nákvæmlega með flugbrautinni sé ekki svo brennandi til að byggja hús á og svo mikilvægur blettur af landinu öllu að nánast ekkert annað komi til greina til að setja sófann sinn.

Mikilvægt er að landsbyggðarmenn hafi aðgang að þjónustu höfuðborgar. Vilji höfuðborg vera höfuðborg hefur hún þjónustuhlutverki að gegna. Af því þjónustuhlutverki hefur höfuðborgin talsverðar tekjur sem hv. þingmaður gumaði af áðan. Því er mikilvægt að landsbyggðarmenn séu þátttakendur í ákvarðanatöku og samstarfi og eigi greiðan aðgang að borginni, bæði á landi, legi og flugi.