131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:32]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað þurfum við borgarbúar á landsbyggðarfólki að halda og þið trúlega á okkur og við hvert á öðru, vona ég.

Auðvitað eru það gild sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir, um öryggi og um sjúkrahús. Samt er það nú þannig að í höfuðborgum heimsins standa hátæknisjúkrahús sem þjóna miklum mun stærri löndum og miklum mun fjölmennari án þess að við hlið þeirra standi fullbúnir alþjóðlegir millilandaflugvellir eins og hér í Vatnsmýrinni. Menn verða einfaldlega að vega og meta hagsmunina af því að lengja þá vegferð um hálftíma annars vegar eða notast við þyrlur í bráðatilfellum þegar á því þarf að halda og hins vegar hagsmuni af því að koma hér upp 20 þús. manna byggð í hjarta borgarinnar. Það er í mínum huga enginn vafi hvorir hagsmunirnir vega þyngra í því, hagsmunir unga fólksins í Reykjavík sem vill fá að búa í nálægð við þjónustu og vinnu á hverjum degi og stytta sér ferðirnar — á hverjum degi — um hálftíma til og frá vinnu. Þeir vega svo miklu þyngra en hagsmunir þeirra sem eiga hér leið einu sinni, tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum á ári og þurfa þá að fórna hálftíma í senn.

Þannig met ég það einfaldlega en ég skil sjónarmið hv. þingmanns og virði þau.