131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:44]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom ekkert svar frá hv. þm. Helga Hjörvar varðandi það sem ég sagði áðan þegar ég vitnaði til bréfs borgarstjóra frá 6. apríl þar sem ekki liggur enn ljóst fyrir hjá borgaryfirvöldum hvora leiðina þau vilji fara. Það kom ekki fram heldur hjá hv. þingmanni hvort ekki sé rétt eftir mér haft það sem hefur komið fram í fjölmiðlum og í umræðunni hjá R-listanum núna um langan tíma, að þau vildu fara brúarleiðina, ytri leiðina, alveg fram til þessa tíma. Það er ekki enn búið að taka ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda með tilvísun til þessa bréfs hér.

Í annan stað, ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Helga Hjörvar að þetta samstarf Faxaflóahafna er mjög gott mál. Það skapar mikla möguleika fyrir höfuðborgina varðandi byggingar og annað og er bara hið besta mál. Það kallar á Sundabrautina, ég geri mér það alveg ljóst. Hins vegar þýðir ekki að segja að þeir sem stýra samgöngumálum í samgönguráðuneytinu séu með allt niður um sig af því að það vanti peninga til framkvæmdanna. Málið er (Forseti hringir.) að það vantar frumkvæði borgarinnar til að taka ákvörðun um hvar Sundabrautin eigi að liggja.